Tyrkneski hakkarahópurinn Anka Neferler Tim gerði tvær tölvuárásir á vefsíðu Isavia í dag, samkvæmt tyrkneska fjölmiðlinum Yeni akit. Hópurinn hafi svarað fyrir móttökurnar sem landslið Tyrklands í knattspyrnu fékk við komuna til Íslands í gærkvöld.
Þetta kemur fram á vefsíðu Yeni akit en RÚV greindi fyrst frá íslenskra miðla.
Málið er rakið á vef Yeni akit þar sem segir að tyrkneska liðið hafi þurft að bíða í um þrjár klukkustundir á flugvellinum.
Greint var frá því fyrr í dag að frá því að flugvél tyrkneska landsliðsins lenti í Keflavík og þar til þeir sem voru um borð voru komnir út úr komusal flugstöðvarinnar hafi liðið ein klukkustund og 23 mínútur.
„Við bíðum ekki þegjandi meðan landsliði okkar er sýnd vanvirðing,“ segir í einni færslu Anka Neferler Tim á Twitter.
Þar greinir hópurinn frá því að hann standi að baki árásunum á vefsíðu Isavia og að árásunum verði haldið áfram.
Türk hackerlardan İzlanda'ya Osmanlı tokadı! #İzlanda #hackerhttps://t.co/q6SElr8R0r
— Yeni Akit Gazetesi (@yeniakit) June 10, 2019