Öryggisleitin er skylda

Senol Günes, þjálfari Tyrkja, segir mönnum sínum til í leik …
Senol Günes, þjálfari Tyrkja, segir mönnum sínum til í leik gegn Frökkum um helgina. AFP

Íslenskir farþegar svo og farþegar allra annarra þjóða sem koma frá flugvöllum utan heildstæðs öryggissvæðis þurfa að fara í gegnum öryggisleit í Leifsstöð og á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga má ekki gefa undantekningar frá þeim reglum sem um eftirlitið gilda. Þetta kemur fram í tilkynningu Isavia vegna fyrirspurnar um tafir tyrkneska landsliðsins við vegabréfaeftirlit í gær.

Tyrknesk yfirvöld sendu erindi til utanríkisráðuneytisins þar sem kvartað var undan þeirri meðferð sem landslið Tyrkja fékk við komuna í Leifsstöð og óskað var eftir skýringum á þeirri meintu töf sem liðið sætti við öryggisleit.

Í tilkynningu Isavia segir að brottfararflugvöllur tyrkneska liðsins sé ekki hluti af öryggissvæðinu sem kallast One Stop Security og gildir fyrir flugvelli í ríkjum ESB og á EES-svæðinu eða í þeim löndum sem gert hafa sérstaka samninga um það.

Þá sé Isavia skylt að framkvæma öryggisleit frá slíkum flugvöllum sem gengur vanalega fljótt fyrir sig en í gærkvöldi hafi leitin tekið lengri tíma þar sem leita þurfti að raftækjum og vökva í óvanalega mörgum töskum farþega með vél tyrkneska liðsins þar sem óskum um að slíkt væri fjarlægt úr töskum var ekki sinnt í öllum tilfellum.

Leitin tók þó ekki jafn langan tíma og tyrkneska liðið hefur haldið fram, en vélin lenti um klukkan 19:40 og síðustu farþegarnir voru komnir út um tollsal um klukkan 21. Ferlið í heild sinni hefur því tekið um 80 mínútur, en tyrknesku leikmennirnir hafa sagt töfina verið nokkrar klukkustundir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert