Segir eitt verða yfir alla að ganga

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi í morgun við Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, um komu tyrkneska knattspyrnulandsliðsins til landsins á sunnudaginn. Segist Guðlaugur sér þykja það leitt að liðið hafi haft neikvæða upplifun af komunni en að eitt verði yfir alla að ganga.

Tyrkneska sendiráðið í Noregi sendi utanríkisráðuneytinu erindi eftir komu liðsins á sunnudag þar sem skýringa á töfum við öryggisleit var óskað.

Isavia gaf í framhaldinu út tilkynningu þar sem kom fram að brott­far­arflug­völl­ur tyrk­neska liðsins sé ekki hluti af heildstæðu öryggissvæði sem kall­ast One Stop Secu­rity og gild­ir fyr­ir flug­velli í ríkj­um ESB og á EES-svæðinu eða í þeim lönd­um sem gert hafa sér­staka samn­inga um það.

Þá sé Isa­via skylt að fram­kvæma ör­ygg­is­leit frá slík­um flug­völl­um sem geng­ur vana­lega fljótt fyr­ir sig en á sunnudag hafi leit­in tekið lengri tíma þar sem leita þurfti að raf­tækj­um og vökva í óvana­lega mörg­um tösk­um farþega með vél tyrk­neska liðsins þar sem ósk­um um að slíkt væri fjar­lægt úr tösk­um var ekki sinnt í öll­um til­fell­um.

Eitt verður yfir alla að ganga 

Í samtali ráðherrana tveggja, sem var að ósk hins tyrkneska, lét Çavuşoğlu í ljós vonbrigði með framkvæmd öryggiseftirlitsins og óskaði frekari skýringa á henni. Þá útskýrði Guðlaugur málið út frá sjónarhóli íslenskra stjórnvalda og áréttaði að framkvæmd öryggisleitarinnar hefði verið í samræmi við hefðbundið verklag og að óskir um sérstaka hraðmeðferð hefðu borist of seint. Þó vekur ráðuneytið athygli á því að slík hraðmeðferð stendur íþróttaliðum alla jafna ekki til boða.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins kemur fram að ráðherra þyki leitt að tyrknenska landsliðið hafi haft neikvæða upplifun af komunni til Íslands því að mikið sé lagt upp úr því að taka vel á móti erlendum gestum.

„Hins vegar verður eitt yfir alla að ganga og venjubundnu verklagi var fylgt í hvívetna. Þetta skýrði ég út fyrir Çavuşoğlu og um leið lýsti ég yfir undrun vegna viðbragða tyrkneskra stjórnvalda, sem væru mun harðari en tilefni gæfi til. Á endanum snýst koma tyrkneska liðsins hingað til lands um knattspyrnu og ég vonast til að allir geti nú einblínt á leikinn í kvöld, sem efalítið verður spennandi,“ segir Guðlaugur Þór.

Mevlut Cavu­soglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavu­soglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert