Helgidagafriður ekki lögbundinn

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um helgidagafrið.
Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um helgidagafrið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarp Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um breytingu á lögum um helgidagafrið var samþykkt á Alþingi í gær með 44 atkvæðum gegn 9, en þingmenn Miðflokksins greiddu allir atkvæði gegn frumvarpinu.

Lagabreytingin, sem Sigríður kynnti er hún gegndi embætti dómsmálaráðherra, fellir úr gildi ákvæði laga sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á tilgreindum helgidögum þjóðkirkjunnar. enn verður þó bannað að trufla guðsþjónustu, krikjulegar athafnir eða annað helgihald.

„Sá friður sem æskilegt er að ríki þessa daga sem aðra er einkum innri friður hvers og eins okkar. Sú ró verður ekki fengin með lögum,“ segir Sigríður á Facebook-síðu sinni.

Þá segir hún frumvarpið hafa tekið breytingum frá upphaflegri útgáfu „í ljósi þess að í mörgum kjarasamningum er vísað til helgidaga þjóðkirkjunnar, og frumvarpinu er alls ekki ætlað að hrófla við samningsbundnum frídögum launþega, þá tók ég tillit til óska stéttarfélaga um að í lögum yrði áfram tilgreint hverjir þessir frídagar séu.“

Sagt skerða rétt til samveru

Hefur Alþýðusambands Íslands gert athugasemdir vegna sambærilegra frumvarpa og gerðu það einnig að þessu sinni. Gerir ASÍ sérstaklega athugasemd við hluta greinargerðar sem segir að tilgangur frumvarpsins sé „að auka frelsi til atvinnurekstrar á helgidögum og koma til móts við þá sem njóta vilja þjónustu og afþreyingar á þessum dögum.“

Telur sambandið þessi frelsisveiting til atvinnurekenda skerða frelsi launafólks. „Frelsi þeirra og rétti til þess að geta notið samveru og eftir atvikum helgihalds og afþreyingar með vinum og fjölskyldu á lögbundnum frídögum eins og löng hefð er fyrir í samfélagi okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert