Ekki náðist samkomulag á fundi formanna stjórnmálaflokka á Alþingi um þinglok sem haldinn var síðdegis í gær. Fundurinn var sá fyrsti sem haldinn er frá því upp úr viðræðum slitnaði á miðvikudag í síðustu viku.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þó hafi mjakast í átt að samkomulagi um nokkur mál. Mikið starf hafi verið unnið til að koma til móts við ólík sjónarmið.
„Það hefur ýmislegt gerst. Ýmis mál hafa verið sett hér á borð og rætt um í fjölmiðlum, t.a.m. sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, fiskeldi og fleiri mál. Mikið starf hefur verið unnið til að koma til móts við ólík sjónarmið í þessum málum. Ég tel að það sé búið að draga úr þeim álitamálum sem hafa verið uppi um þessi mál. Þau eiga ekki að standa í vegi þess að við getum lokið þinghaldi,“ segir Katrín í Morgunblaðinu í dag. Þannig hafi fulltrúar meiri- og minnihluta t.d. fundað um breytingartillögu minnihlutans um fiskeldismál og sérstaklega farið yfir athugasemdir minnihlutans í nefndaráliti um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.