Neisti frá útblæstri bíls dugar til

Eldur kom upp í sumarhúsi í Skorradal sumarið 2017 og …
Eldur kom upp í sumarhúsi í Skorradal sumarið 2017 og varð húsið alelda. mbl.is/​Pét­ur Davíðsson

„Það er ekki aftur tekið ef upp kemur eldur og aðstæður geta orðið varasamar,“ segir Dóra Hjálmarsdóttir, öryggisráðgjafi og verkfræðingur hjá Verkís. Almannavarnir greindu frá því í gær að óvissustigi hefði verið lýst yfir á Vesturlandi vegna langvarandi þurrka og þá hefur viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í Skorradal verið virkjuð. 

„Fólk sem er á sumarhúsasvæðum í þessu ástandi ætti að kanna hvort það sé með aðgang að vatni,“ segir Dóra. Eins borgar sig að kanna hvort að sina eða þurr gróður sé alveg upp við húsið og ef svo er, hvort hægt sé að hreinsa frá pallinum eða undan honum. Þá þarf að hafa varan á, sé fólk með eldfim efni sem kviknað gæti í.

Skógræktin, Brunavarnir Árnessýslu, Mannvirkjastofnun, Landssamband sumarhúsaeigenda, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamtök skógareigenda og Verkís eru með átak í gangi við kynningu á gróðureldum, hættum, forvörnum og viðbrögðum. Dóra hefur tekið þátt í þessu samstarfi fyrir hönd Verkís, sem m.a. veitir ráðgjöf til skipuleggjenda, eigenda og rekstraraðila sumarhúsasvæða vegna skipulags brunavarna og viðbragða.

Reykingar, einnota grill og framkvæmdir

„Það er mjög algeng orsök elds að verið er að grilla,“ segir Dóra og nefnir einnota grill, litla bálkesti, reykingar og ýmsar framkvæmdir sem algengar orsakir.  „Það dettur vonandi engum í hug að fara að kveikja í flugeldum eða brenna sinu við þessar aðstæður, en það sem fólk áttar sig ekki endilega á er að neisti  frá útblæstri bíls getur kveikt eld.“ Til að forðast slíkt eigi til að mynda að slökkva á bílum þegar þeir eru ekki í akstri.

Lögreglan á Vesturlandi vinnur hér að því að slökkva í …
Lögreglan á Vesturlandi vinnur hér að því að slökkva í sinuelda. Mynd úr safni. mbl.is/Lögreglan á Vesturlandi

Neistamyndun frá framkvæmdum, þar sem t.d. er verið að saga, slípa eða skera getur líka verið mjög varasöm við þessar aðstæður, sé þurr gróður er í nágrenninu. Eins getur sumum efnum fylgt sjálfsíkveikjuhætta. „Þannig getur til dæmis kviknað í olíublautum tuskum,“ segir Dóra. „Það er því um að gera að dýfa þeim í vatn og henda svo í eitthvað málmílát þannig að það skapist ekki hætta.“

Best sé þó að láta allar framkvæmdir vera, sé möguleiki á að það skapist einhver hætta. „Þurfi menn hins vegar að vera að vinna þá ættu þeir að hafa slökkvitæki eða slöngu við höndina,“ bætir hún við.

Sinuklappir og nornakústar góður búnaður

Samstarfshópurinn hefur gefið út bæklinginn Gróðureldar — forvarnir og fyrstu viðbrögð og þá má leita ráða á vefsíðunni www.grodureldar.is um fyrstu viðbrögð og viðbúnað. Hópurinn hefur einnig staðið fyrir námskeiðum fyrir félög sumarhúsaeigenda og þá var opin fundur haldinn um málið  fyrir áhugasama í lok síðasta mánaðar.

Með þessu viljum við vekja fólk til umhugsunar um að þetta er raunveruleg hætta, segir Dóra og kveður fólk geta gert margt til að draga úr eldhættu með því að stunda brunavarnir í sínum ranni.

Brunavarnir séu nokkuð sem þurfi að huga að til framtíðar á sumarhúsasvæðum. Þannig þurfi að huga að að því að gróðurinn vaxi ekki inn undir bústaðinn. Að í kringum bústaðinn sé svæði sem sé tiltölulega gróðurlítið og þar sem lítið er um eldfimt efni. „Eins þarf að passa að safna ekki rusli eða öðru eldfimu undir bústaðinn,“ segir Dóra.

„Þá þarf að vita hvert á að fara ef kviknar í og vera þá með brunavarnir, bæði innan húss og utan, í lagi.“  Hún bendir á að eld- eða sinuklöppur og svo nefndir nornakústar, sem nota má til að berja niður gróðurelda, séu heppilegur útbúnaður úti við bústaðinn.

Ökuleiðir geta teppst

Dóra bendir á að einnig sé mikilvægt að fólk sé búið að kortleggja hvaða leiðir það kemst frá bústaðnum, fari svo að gróðureldar kvikni, og hvar öruggu svæðin sé að finna. „Það getur komið fyrir að ökuleiðir teppist, til dæmis vegna þess að eldurinn nær yfir veginn,“ útskýrir hún og þá skipti máli að vita hvar öruggu svæðin sé að finna.

„Í Skorradalnum gæti ég til dæmis ímyndað mér að þau væru niður við vatnið,“ segir Dóra en ítrekar þó að sér sé ókunnugt um hvort að búið sé að skilgreina slíka samkomustaði í Skorradalnum.

„Það er nokkuð sem þyrfti að gera fyrir allar sumarhúsabyggðir, að skipuleggja brunavarnirnar.“  Sú vinna er að hennar sögn víða komin í gang við nýrri sumarhúsabyggðir. Á eldri svæðunum eru þessi mál hins vegar í ólestri og bera þess merki að gróðureldar voru ekki ofarlega á lista er þær byggðir risu á áður hrjóstrugum svæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert