„Við reynum að komast af stað jafn fljótt og við getum,“ segir Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks í samtali við mbl.is. Sveitarstjórn Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í gær framkvæmdaleyfi fyrirtækisins fyrir fyrsta hluta virkjanaframkvæmda við Hvalárvirkjun.
Leyfið tekur til rannsókna á jarðfræðilegum þáttum, vegagerð við vegi að og um virkjunarsvæði, brúargerð yfir Hvalá, efnistöku og efnislosun, byggingu fráveitu, öflun neysluvatns og uppsetningu vinnubúða.
„Við erum himinlifandi yfir þessu,“ segir Gunnar um að leyfið sé í höfn og kveðst gera ráð fyrir að VesturVerk hefji framkvæmdir strax í þessum mánuði. Ekki liggi hins vegar enn fyrir hve margir verði þar að störfum.
Umsókn fyrir framkvæmdaleyfinu var upphaflega lögð fram í september í fyrra, en þar sem auglýsing á breytingum deiliskipulags vegna Hvalárvirkjunar var birt í Lögbirtingarblaðinu tveimur dögum of seint þurfti hreppsnefndin að taka málið fyrir að nýju.
Framkvæmdaleyfisumsókn VesturVerks sem samþykkt var í gær er sú sama og felur endurbirtingin því í sér 8-9 mánaða töf sem Gunnar segir hafa kostað fyrirtækið fleiri milljónir. „Þetta er bara handvömm,“ segir hann.
Spurður hvenær hann telji líklegt að rannsóknum ljúki og í kjölfarið verði niðurstaðna að vænta varðandi leyfisveitingu fyrir virkjanagerðina sjálfa segir Gunnar VesturVerk hafa ætlað að sér að gera allar nauðsynlegar rannsóknir í sumar. Ljóst sé hins vegar að það muni ekki nást, þar sem ekki sé gert ráð fyrir að hægt verði að vinna á svæðinu mikið lengur en út september.
„Þetta kemur svo seint, að það er komið fram á mitt sumar núna, en við munum gera allt sem við getum til að undirbúa það fyrir næsta sumar,“ segir hann og kveðst vonast til að það takist að ljúka undirbúningi í ár, þannig að hægt verði að gera rannsóknirnar næsta sumar.