Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra afhendir á laugardaginn Vestmannaeyingum nýja ferju fyrir samgöngur milli lands og Eyja.
Af því tilefni verður efnt til formlegrar móttökuathafnar í Friðarhöfninni í Vestmannaeyjum. Athöfnin hefst kl. 14:15 með ræðum samgönguráðherra, forstjóra Vegagerðarinnar, formanni bæjarráðs og fulltrúa Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Prestur Landakirkju mun blessa skipið og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra formlega nefna það, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Í framhaldi verður skipið bæjarbúum og öðrum gestum til sýnis. Boðið verður upp á veitingar, skemmtiatriði og fleira milli klukkan 14:30 og 16.
Sunnudaginn 16. júní verður skipið jafnframt til sýnis frá kl. 16 til 18.
Bæjarbúar og aðrir gestir eru í tilkynningunni hvattir til að koma niður á bryggju, gera sér glaðan dag og njóta tímamótanna.