Ummælin höfðu „veruleg áhrif“ innan HR

Kristinn Sigurjónsson og Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður hans í Héraðsdómi …
Kristinn Sigurjónsson og Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður hans í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Arnþór

Aðalmeðferð í máli Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors við Háskólann í Reykjavík, fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en hann stefnir skólanum vegna uppsagnar sinnar í október síðastliðnum. Honum var sagt upp vegna ummæla á netinu.

Við skýrslutöku lýsti Ari Kristinn Jónsson rektor háskólans því að ummæli Kristins á hópnum Karlmennskuspjallið á Facebook hefðu haft „veruleg áhrif á starfsmenn“ og Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristins, spurði Sigríði Elínu Guðlaugsdóttur mannauðsstjóra háskólans að því hvort hún hefði séð ummæli um hann sjálfan á Facebook-hópnum Karlar sem gera merkilega hluti.

Hildur Briem héraðsdómari beindi þeim orðum til lögmannsins að málið snerist ekki um lögmanninn sjálfan og ummæli á netinu gegn honum, heldur þau ummæli sem Kristinn Sigurjónsson, þá lektor við HR, hefði haft frammi á netinu í byrjun október síðastliðins og aðgerðir Háskólans í Reykjavík í kjölfarið, en Kristni var sagt upp vegna ummælanna.

Hann krefur háskólann um 66 mánaða laun, sem hann telur sig eiga rétt á þar sem hann kenndi áður hjá Tækniháskólanum í Reykjavík og var þar opinber starfsmaður.

Ummæli Kristins vöktu mikla athygli eftir að frétt birtist um þau á síðum DV, en hann sagði meðal annars á áðurnefndu Karlmennskuspjalli að konur eyðileggðu vinnustaði með því að troða sér inn á þá því að karlmenn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“. Sagðist hann jafnframt síður vilja vinna með konum eða hafa þær nærri sér, eins og viðhorfin væru í dag.

Eva B. Helgadóttir, lögmaður HR í málinu, spurði Kristin að því hvort að hann teldi sig hafa verið með réttarstöðu opinbers starfsmanns í starfi sínu hjá HR. Hann sagði svo hafa verið, en er hann var spurður hvort að hann hefði nefnt það þegar hann undirritaði nýjan ráðningarsamning sem var uppsegjanlegur af beggja hálfu árið 2005 eða þegar að almenn launalækkun var á meðal starfsfólks HR árið 2009, svaraði hann því neitandi.

Eva B. Helgadóttir lögmaður HR og Ari Kristinn Jónsson rektor …
Eva B. Helgadóttir lögmaður HR og Ari Kristinn Jónsson rektor háskólans í dómsal í morgun. mbl.is/Arnþór

„Það er að mati stefnanda enginn vafi á því að hann nýtur þessarar réttarstöðu,“ sagði þó Jón Steinar lögmaður hans í málflutningsræðu sinni og það er þetta atriði sem dómurinn mun þurfa að taka afstöðu til í málinu, hvort Kristinn hafi notið uppsagnarverndar hjá HR.

Lögmaður HR lagði áherslu á það að strax árið 2005 hefði Kristinn fengið upplýsingar um það að hann nyti ekki, sem starfsmaður hins nýsameinaða háskóla, lengur þeirra réttinda opinberir starfsmenn njóta á vinnumarkaði.

Hún sagði í málflutningsræðu sinni að Kristinn hefði á fundinum þar sem honum var sagt upp, 4. október sl., ekki minnst á það að hann teldi sig njóta réttinda sem opinber starfsmaður. Það sagði hún hafa komið upp síðar og bendi til þess að Kristinn hafi alls ekki talið sig njóta þeirra réttinda.

Sagðist hafa verið að ræða „vandamál líðandi stundar“

Í samtali við mbl.is skömmu eftir að ummæli Kristins komust í opinberri umræðu, sagðist hann vilja biðja „heiðarlegar konur“ afsökunar á ummælum sínum. Eva spurði Kristinn að því hvaða konur það væru, sem væru heiðarlegar. Það sagði Kristinn vera þær konur sem ekki „standa í því að tálma umgengni“ hins foreldrisins við barn sitt.

Spurður hvort hann sæi eftir ummælum sínum, sagði Kristinn að hann gæti sagt það, en bætti við að þarna hefði hann reiknað með því að hann væri bara að tala um „vandamál líðandi stundar“.

„Ég kannski hefði mátt orða það öðruvísi, en ég var bara að tala á lokuðu svæði,“ sagði Kristinn, sem sagði að hann hefði „alls ekki“ búist við því að vera sagt upp vegna ummælanna, en í máli hans kom einnig fram að samstarfskona hans í háskólanum hefði staðið upp frá borði á kaffistofu háskólans og flutt sig annað er hann gekk inn, eftir að málið fór í fjölmiðla.

Áhrifin á starfsmenn „veruleg“

Ari Kristinn rektor sagði að ummæli Kristins hefðu strax komist í umræðu innan Háskólans í Reykjavík og að strax hefði verið ljóst að þau hefðu „haft veruleg áhrif á starfsmenn“. Hann sagði að í kjölfarið hefði hann rætt við Ágúst Valfells, yfirmann Kristins og þeir síðan rætt við Sigríði Elínu mannauðsstjóra degi síðar og komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að „ljúka samstarfi aðila“.

Rektor sagði ummæli Kristins ekki einu ástæðuna fyrir því að lektornum var sagt upp störfum, heldur hefðu einnig komið athugasemdir frá kvenkyns nemendum háskólans um „gamanmál“ sem Kristinn hefði farið með í kennslustundum. Honum hefði verið tjáð að klúrir brandarar ættu ekki heima í kennslustofum.

Hann sagði að stór vinnustaður eins og HR, sem byggi alfarið á mannauð, verði að tryggja það að bæði starfsmönnum og nemendum líði vel í skólanum. Hann sagði að kannanir innan skólans hefðu sýnt fram á að starfsmenn vildu ekki sjá áreiti innan veggja skólans og að ef að þau ummæli á borð við þau sem Kristinn lét falla hefðu beinst gegn öðrum hópi en konum, til dæmis samkynhneigðum, hefðu þau líka verið tekin alvarlega.

„Við fundum fyrir því að konur á vinnustaðnum tóku þessu mjög alvarlega,“ sagði Ari Kristinn, sem nefndi einnig að skólinn hefðu verið í sérstöku átaki til þess að fjölga kvenkyns nemendum í tæknigreinum.

Jón Steinar spurði Ara Kristin að því hvort það kæmi HR eða yfirstjórn hans yfirhöfuð eitthvað við hvað starfsmenn skólans eru að segja á opinberum vettvangi um samfélagsmál.

„Almennt séð nei, en það kemur okkur við hvernig starfsandinn er, hvernig nemendum líður og starfsmönnum líður,“ sagði rektor. Hann sagði málið ekki snúast um hans skoðun á ummælunum, heldur áhrifin sem ummælin hefðu haft á starfsmenn HR.

Tekist á um tjáningarfrelsið

Jón Steinar lagði í málflutningi sínum mikla áherslu á það að Kristni væri frjálst að tjá sig með hvaða hætti sem hann vildi utan skólans. „Það er eins og menn skilji ekki eðli tjáningarfrelsisins,“ sagði Jón Steinar og bætti því við tjáningarfrelsið fæli það í sér að „þú megir tjá þig um hvaða þjóðfélagslegt málefni sem er og þú átt að geta gert það án þess að að þér sé veist.“

Jón Steinar ræddi líka í nokkuð löngu máli um þátttöku Sigríðar Elínar Guðlaugsdóttur, mannauðsstjóra skólans, í Facebook-hópnum Karlar sem gera merkilega hluti og sagði að með óbeinni þátttöku sinni í þeim umræðuhóp væri Sigríður Elín að taka undir ummæli á borð við þau sem féllu í þeim hópi gegn honum sjálfum og hann vakti athygli á, einmitt í október síðastliðnum, skömmu eftir að Kristinn hafði látið ummæli sín falla og verið sagt upp af HR.

Hildur Briem dómari spurði Jón Steinar að því hvaða þýðingu þetta hefði fyrir það mál sem hér væri til umfjöllunar og svaraði Jón Steinar því til að með því að draga þetta fram væri hann að sýna fram á að mannauðsstjóri skólans hefði einnig tekið þátt í umræðum þar sem verulega hallaði á annað kynið. Aðild hennar að téðum Facebook-hópi gæfi hópinum vigt.

Í málflutningi sínum sagði Eva B. Helgadóttir að tjáningarfrelsið væri vissulega tryggt í stjórnarskrá, en að samkvæmt stjórnarskrárákvæðinu þurfi þeir sem tjái sig líka að bera ábyrgð á eigin tjáningu.

Hún sagði að það væri ekkert í tjáningarfrelsisákvæðinu sem að skyldaði HR til þess að vera áfram í ráðningarsambandi við einhvern, óháð því hvað hann segði á opinberum vettvangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert