Ný hjúkrunarrými leysi fráflæðisvanda

Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður læknaráðs.
Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður læknaráðs. mbl.is/Árni Sæberg

Nauðsynlegt er að leysa þann fráflæðisvanda sem ríkir á Landspítala, sem lýsir sér í því að rými, sem eiga að heita bráðadeild, eru að miklu leyti full af sjúklingum sem ættu að liggja á legudeild. Þetta segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður læknaráðs Landspítala.

Læknaráð sendi í morgun frá sér ályktun til stjórnvalda þar sem lýst er áhyggjum af ófullkominni einangrun sjúklinga sem mögulega bera fjölónæmar bakteríur á bráðamóttöku.

Ebba segir útlit fyrir að ástandið muni batna til muna með nýjum meðferðarkjarna Landspítala, sem sennilega verður tekinn í gagnið eftir fjögur ár, en þangað til þurfi tímabundin úrræði.

 „Þetta er í raun keðjuverkun. Á bráðdeild er fólk sem ætti að vera á legudeild, en legudeildin er full af fólki sem ætti heima á hjúkrunarheimilum.“ Nauðsynlegt sé að reisa ný hjúkrunarheimili, og ekki síst manna þau en þar hefur hnífurinn staðið í kúnni. Illa gangi að manna þau nýju hjúkrunarheimili sem sprottið hafa upp.

Ályktun læknaráðs er send að frumkvæði Karls Kristinssonar, yfirlæknis á sýklafræðideild, og Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis bráðalækninga á Landspítala, sem leituðu til ráðsins.

Ebba segir starfsmenn spítalans, og læknaráð, vera í reglulegum samskiptum við stjórnvöld og að ályktuninni verði fylgt eftir í samtölum við ráðamenn. Mikilvægt sé að endurskoðuð fjármálaáætlun verði ekki til þess að hægja á uppbyggingunýs meðferðarkjarna, heldur þurfi þvert á móti að gefa í. „Þetta er eilífðarvandamál og þar duga engar skammtímalausnir. En ég er alltaf bjartsýn og leitast eftir að vera lausnamiðuð,“ segir Ebba að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert