Ekki náðist samkomulag á milli ríkisstjórnarflokkanna og Miðflokksins í kvöld um þinglok. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir flokkinn hafa verið búinn að undirrita samkomulag um ellefuleytið en einn stjórnarflokkanna hafi ekki viljað samþykkja það. Þar hafi málið strandað.
„Það var orðið samkomulag sem við vorum búin að undirrita en það virtist stranda á einhverjum hluta stjórnarflokkanna,“ segir Bergþór.
„Þetta eru vissulega vonbrigði að málið hafi í rauninni komist á þann stað að samkomulag var frágengið og undirritað af hluta þeirra sem að komu en það gekk ekki,“ bætir hann við en þingfundi var slitið laust fyrir miðnætti.
„Nú höldum við áfram á morgun og sjáum hvað morgundagurinn ber í skauti sér.“