Engin lending komin um þinglok

Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur reyna að komast að samkomulagi sín á …
Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur reyna að komast að samkomulagi sín á milli um hvaða mál verði kláruð á þessu þingi, hvaða málum frestað og hvar verði gerðar breytingar. mbl.is/​Hari

„Ég er bjartsýnn á að hægt sé að finna lausn sem allir aðilar geta lifað við á grundvelli þeirra draga að samkomulagi sem fóru á milli aðila á fimmtudagskvöldið,“ segir Bergþór Ólason, varaþingflokksformaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

Enn þá virðist engin lending komin í viðræðum Sjálfstæðisflokksins við Miðflokkinn um þinglokasamning. Viðræðurnar eru í gangi en hljóðið í mönnum er á þá leið að ekki sé mikill kraftur í viðræðunum.

Drög að samningi lágu fyrir á fimmtudagskvöld en þegar til kastanna kom reyndist ekki stuðningur við samkomulagið innan raða Sjálfstæðisflokksins, eins og sagði í Morgunblaðinu á laugardaginn.

„Verði gerðar einhverjar breytingar á þeim drögum sem lágu fyrir á fimmtudaginn er líklegast að það verði einhver endurskoðun sem best er að úttala sig sem minnst um fyrr en allir hnútir eru hnýttir,“ segir Bergþór. Hann og Birgir Ármannsson hugðust ræða málin yfir helgi, sem er löng vegna 17. júní.

Samkomulagið sem reynt er að komast að snýst sem sé um hvaða mál eru kláruð á þessu þingi, hvaða málum er frestað og á hvaða málum er gerð breyting, til að koma til móts við áhyggjur ólíkra aðila. 

„Allt bara með kyrrum kjörum, það eru engar nýjar fréttir,“ segir Birgir Ármannsson í samtali við mbl.is þegar upplýsinga um stöðu mála er leitað hjá honum. Hann bætir því við að samtalið haldi áfram á milli flokkanna á morgun eða í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert