„Friðlaus fjallarefur, fast á jaxlinn bítur. Yfir eggjagrjótið eins og logi þýtur,“ orti Davíð Stefánsson frá Fagraskógi eitt sinn.
Hafsteinn Björgvinsson, umsjónarmaður vatnsverndarsvæða Veitna, segir refi vera mjög algenga á útjöðrum höfuðborgarsvæðisins eins og í Heiðmörk, Mosfellsdal og víðar.
Í skýrslu hans, Fuglar og önnur dýr á verndarsvæðum vatnsbóla Reykjavíkur 2018, kemur meðal annars fram að refum hefur fjölgað mjög í Heiðmörk frá árinu 1990. Ber mest á þeim í Vatnsendakrika. Segir jafnframt í skýrslunni að refurinn hafi verið að færa sig neðar í Heiðmörkina síðustu árin og greni hans fundist innan girðinga vatnstökusvæða. Þá mun vera mjög algengt að sjá refi rölta um Heiðmörkina í leit að æti og þá helst eggjum, fuglum, kanínum og músum.
Það má því segja að borgarland þetta sé áhugaverður staður öllum þeim sem kunna að meta fjölbreytt dýralíf og náttúru.