Að venju verður mikið um hátíðarhöld og skemmtanir af ýmsu tagi í tilefni þjóðhátíðardags Íslendinga. Mbl.is tók saman dagskrána í nokkrum sveitarfélögum og er af nógu að taka.
Dagskráin byrjar snemma á Akranesi og stendur fram eftir degi. Haldinn verður þjóðlegur morgunn á Byggðasafninu þar sem verður frítt inn. Gestir í þjóðbúningi fá glaðning, félagar í hestamannafélaginu Dreyra teyma börnin og þá verður farið í útileiki á gamla mátann og boðið upp á andlitsmálun.
Milli 14 og 16 verður dagskrá við Akratorg sem hefst á fánahyllingu. Klifurfélag ÍA flytur sýningu utan á gamla Landsbankahúsinu, bæjarlistamaður Akraness 2019 verður heiðraður og kór Akraneskirkju leiðir þjóðsönginn og syngur ættjarðarlög.
Ronja ræningjadóttir ætlar að láta sjá sig, boðið verður upp á dansatriði og dagskránni lýkur með tónleikum Páls Óskars Hjálmtýssonar.
Mikið verður um dýrðir í Akureyrarbæ og hefst hátíðardagskrá klukkan 13 í Lystigarðinum. Þaðan verður skrúðganga niður í miðbæ þar sem boðið verður upp á fjölskylduskemmtun um daginn sem og aftur um kvöldið að miðnætti. Dagskránni lýkur með marseringu nýstúdenta Menntaskólans á Akureyri.
Á fjölskylduskemmtuninni milli klukkan 14 og 16 kemur leikhópurinn Lotta fram, boðið verður upp á dans- og tónlistaratriði svo eitthvað sé nefnt.
Á kvölddagskránni eru tónlistaratriði, uppistand og tónleikar með Hvanndalsbræðrum.
Dagskrá þjóðhátíðardags Íslendinga í Fljótdalshéraði fer að mestu fram í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum líkt og undanfarin ár. Einnig verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Sláturhúsinu menningarsetri og í Minjasafni Austurlands.
Hátíðardagskráin hófst á messu fyrir alla fjölskylduna klukkan hálfellefu og að henni lokinni verður skrúðganga frá Egilsstaðakirkju í Tjarnargarðinn þar sem mikið verður um að vera.
Klukkan 12 hefst kassabílakeppni og eru allir hvattir til að mæta með sinn eigin kassabíl. Litli húsdýragarðurinn verður opinn og teymt undir börnin. Andlitsmálun, hoppukastalar, tónlistaratriði og afhending menningarverðlauna er meðal atriða á dagskrá frá klukkan 13.
Dagskráin hefst á Álftanesi klukkan 10 með skrúðgöngu frá Safnaðarheimili Bessastaðasóknar að hátíðarsviði á Álftanesi þar sem hátíðarhöldin verða formlega sett. Á svæðinu verða hoppukastalar og fleira fyrir fjölskyldur og börn.
Frítt verður í sund fyrir Garðbæinga í Álftaneslaug og boðið er upp á ókeypis veiði fyrir alla Garðbæinga við suðurbakka Vífilsstaðavatns og á bryggju.
Á Garðatorgi hefst hátíð klukkan 14 með ávarpi forseta bæjarstjórnar. Karma Brigade, Sirkus Íslands, Herra Hnetusmjör og Skoppa og Skrítla verða á staðnum.
Skrúðganga frá Flensborgarskóla hefst klukkan 13 að Thorsplani þar sem stíf dagskrá verður alveg til klukkan 17. Íþróttaálfurinn stígur fyrstur á stokk ásamt Sollu stirðu, Lína Langsokkur fylgir á eftir og þá verða Karíus og Baktus einnig á svæðinu.
Katrín Halldóra syngur lög Ellýjar Vilhjálms, BRÍET flytur lög sem og JóiP og Króli.
Dagskrá hátíðarhalda hefst með skrúðgöngu sem hefst við Menntaskólann í Kópavogi klukkan hálftvö og lýkur á Rútstúni. Þar verður skemmtileg dagskrá frá 14. Meðal þeirra sem koma fram eru Ronja ræningjadóttir, Ingó Veðurguð, Sveppi, Svala Björgvins og JóiP og Króli.
Á Rútstúni verða einnig leiktæki og veitingasala. Á sundlaugarplaninu verða tívolítæki, veltibíll og fleira. Kvöldtónleikar á Rútstúni byrja klukka 20 og fram koma Blóðmör, GDRN, Sísý Ey og Páll Óskar.
Nóg verður um að vera í skrúðgarðinum í Keflavík í dag milli klukkan 14 og 16. Á sviðinu fer fram skemmtidagskrá og fram koma Danskompaní, Bryn Ballet Akademían, Dýrin í Hálsaskógi og Friðrik Dór. Í skrúðgarðinum verður hestateyming, hoppukastalar og húðflúrstjald.
Duus safnahús verður opið milli 12 og 17 og aðgangur ókeypis. Rokksafn Íslands verður opið milli 11 og 18 og aðgangur ókeypis fyrir 16 ára og yngri.
Hátíðardagskrá í Sigtúnsgarði hefst klukkan hálftvö og verður nóg um að vera fyrir börn og fullorðna. Boðið verður upp á tónlistaratriði og afþreyingu.
Frítt er í alla afþreyingu og má þar nefna loftbolta, trampólín, hoppukastala, blöðrulistamenn og fleira.
Klukkan 21 hefst dansiball með hljómsveit. Allir velkomnir og frítt inn.