„Ísland þorir, vill og get­ur“

Katrín Jakobsdóttir flytur ræðu sína á Austurvelli.
Katrín Jakobsdóttir flytur ræðu sína á Austurvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þó að nú blási nokkuð á móti í efnahagslífinu erum við núna vel í stakk búin til að takast á við smá stinningskalda. Árin frá hruni hafa nýst til að undirbyggja hagstjórnina, greiða niður skuldir og byggja upp innviði,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi á Austurvelli nú fyrir stuttu og bætti við:

„Við munum takast á við öll veðurafbrigði með samstöðu og trú á framtíðina, eins og við höfum gert alla lýðveldissöguna.“

Hátíðardagskráin í Reykjavík hófst formlega á Austurvelli nú klukkan 11 þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands lagði blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar. Í kjölfarið flutti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hátíðarávarp sitt og því næst flutti Fjallkonan ljóð.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands við styttuna af Jóni Sigurðssyni. …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands við styttuna af Jóni Sigurðssyni. Fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson fylgist með. mbl.is/Kristinn Magnússon
Blómsveigurinn sem var lagður við styttu Jóns Sigurðssonar.
Blómsveigurinn sem var lagður við styttu Jóns Sigurðssonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín ímyndaði sér að tvær manneskjur, þau Jón og Sigga frá árinu 1944, ferðuðust með tímavél til ársins 2019. Hún tók dæmi um þær gríðarlegu breytingar sem hafa átt sér stað á síðustu 75 árum.

Úr fátækt í fádæma velmegun

„Árið 1944 bjuggu einungis um 125 þúsund manns á landinu öllu. Má segja að Íslendingar stukku beint inn í nútímann nálægt lýðveldisstofnun, þegar við virkjuðum fossa, fórum að malbika vegi og smíða brýr. Iðnvæðingin sem hófst á 18. öld í nágrannalöndunum kom hingað með hvelli í byrjun 20. aldar með vélvæðingu bátaflotans og brátt varð samfélag okkar eitt hið iðnvæddasta í heiminum eftir ótrúlega hraða þróun úr sárri fátækt í fádæma velmegun,“ sagði hún og bætti við:

„Mannveran er stöðugt að breytast og þróast. Saga lýðveldisins hefur einnig verið sveiflukennd. Efnahagurinn hefur farið upp og niður eftir fiskgengd, álverði, ferðamannastraumi og regluleg góðæri og hallæri hafa einkennt hagsöguna. En okkur hefur þó miðað áfram,“ sagði Katrín og nefndi almannatryggingar, heilbrigðisstofnanir, skóla og menningu sem dæmi um þær framfarir sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi síðan Ísland varð að lýðveldi.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands og Ólafur …
Frú Vigdís Finnbogadóttir, Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands og Ólafur Ragnar Grímsson voru viðstödd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki hægt að taka lýðræðinu sem gefnu

„Hart var barist fyrir sjálfstæði Íslands en þegar langt er liðið frá baráttunni getur manni orðið hætt við því að verða full makindalegur. Stundum vill gleymast að við getum ekki tekið lýðræðinu sem var innsiglað fyrir 75 árum við stofnun lýðveldisins Íslands sem gefnu,“ sagði Katrín og nefndi að stundum væri það eins og lýðræðið skorti tilgang í heimi þar sem efast sé um stjórnmálaflokka, þjóðþing og stofnanir lýðræðisins á hverjum degi.

„Þá má ekki gleyma því að rúm 80% þjóðarinnar mæta á kjörstað í þingkosningum, meira að segja þegar þær eru haldnar með árs millibili, og velja þá flokka sem eru í boði og afhenda okkur þingmönnum um leið mikla ábyrgð. Því hlutverk okkar allra er að vera fulltrúar þjóðarinnar allrar, ekki aðeins eigin kjósenda, og standa vörð um og tryggja að undirstöðustofnanir hins frjálslynda lýðræðis virki sem skyldi í þágu alls almennings og tryggi opið samfélag, vernd minnihlutahópa, mannréttindi og þrískiptingu ríkisvalds,“ bætti hún við.

Ráðherrar í ríkisstjórn Ísland voru á Austurvelli.
Ráðherrar í ríkisstjórn Ísland voru á Austurvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn er eyland

Katrín sagði sögu Íslands vera sögu samskipta við umheiminn og að þótt Ísland væri eyland sannaðist hið fornkveðna að enginn væri eyland.

„Frá landnámi vorum við stöðugt á ferðinni, vegna verslunar og viðskipta, vegna menningar og lista eða vegna myrkraverka sem við hrósum okkur kannski ekki af núna. Íslensk menning er afurð alþjóðlegra samskipta þó að hún sé líka einstök fyrir margra hluta sakir.

Í senn er mikilvægt að standa með sjálfum sér og gæta að því sem við eigum: landi, tungu og menningu. En líka að muna að við erum fullvalda þjóð og getum sem slík  átt samskipti við hvern sem er á jafnræðisgrundvelli,“ bætti hún við.

Þá sagði Katrín að sjaldan hafi verið mikilvægara að standa með fullveldinu og lýðræðinu en nú með gildismat þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands að leiðarljósi.

Að lokum nefndi hún að loftslagsbreytingar og tæknibreytingar ættu eftir að hafa mikil áhrif á samfélög og lýðræðið. Ávarpi Katrínar lauk með þessum orðum:

„Við Íslendingar eigum tækifæri í þeirri stöðu því rödd okkar getur verið sterk þótt við séum fámenn þjóð. Það sem við munum gera skiptir máli fyrir alþjóðasamfélagið og okkur sjálf. Það sem gerum skiptir máli fyrir okkur sem hér stöndum en líka fyrir komandi kynslóðir. Sýnum því heiminum að Ísland þorir, vill og getur.“

Ræðu Katrínar í heild sinni má lesa hér.

Aldís Amah Hamilton stóð sig vel í hlutverki Fjallkonunnar.
Aldís Amah Hamilton stóð sig vel í hlutverki Fjallkonunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
Bubbi Morthens ásamt eiginkonu sinni Hrafnhildi Hafsteinsdóttur. Bubbi orti ljóðið …
Bubbi Morthens ásamt eiginkonu sinni Hrafnhildi Hafsteinsdóttur. Bubbi orti ljóðið sem Fjallkonan fór með í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert