Mikið um að vera í borginni

75 ára afmæli lýðveldisins verður haldið hátíðlegt í dag.
75 ára afmæli lýðveldisins verður haldið hátíðlegt í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil hátíðarhöld verða í höfuðborginni í dag í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins. Margskonar skemmtiatriði verða á dagskránni víða um borgina og því ættu allir að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi.

Segja má að hátíðardagskráin hefjist formlega á Austurvelli klukkan 11 í dag þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, leggur blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar. Strax í kjölfarið mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lesa upp hátíðarávarp og að því loknu flytur Fjallkonan ljóð.

Frá klukkan 14 til 18 í dag verða Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg, Alþingi, Hæstiréttur Íslands, Héraðsdómur Reykjavíkur, Seðlabanki Íslands og Hafrannsóknastofnun opin almenningi. Þá verður einnig ókeypis aðgangur að Þjóðminjasafninu milli klukkan 10 og 17 þar sem mennta- og menningarmálaráðherra, opnar Stofu, nýtt fjölskyldu- og fræðirými í safninu. Auk þess munu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra hleypa af stokkunum átaksverkefni til fimm ára um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda.

Á öðrum stöðum í miðbænum verður nóg um að vera en í Hljómskálagarði verða haldnir stórtónleikar milli klukkan 14 og 17 þar sem fjölmargir þjóðþekktir listamenn koma fram. Á sama tíma verða brúðubíllinn og Sirkus Íslands með sýningu auk þess sem hoppukastalar verða á svæðinu.

Þá hefur Landssamband bakarameistara hannað 75 metra langa Lýðveldisköku sem standa mun gestum og gangandi til boða.

Dagskrá 17. júní í Reykjavík

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert