Starfsmönnum fjölgaði um 29,5%

Starfsmönnum forsætisráðuneytis fjölgaði um 13 á rúmum þremur árum.
Starfsmönnum forsætisráðuneytis fjölgaði um 13 á rúmum þremur árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsmönnum forsætisráðuneytisins fjölgaði um um 13 frá janúar 2016 til apríl 2019, sem jafngildir 29,5% fjölgun á tímabilinu. Þetta kemur fram í svari Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við skriflegri fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.

Fjölgun starfsmanna er meðal annars að rekja til tilfærslu verkefna milli ráðuneyta.

Í janúar 2016 voru 44 starfsmenn á launaskrá forsætisráðuneytisins, í janúar 2017 voru þeir 46, 49 í janúar 2018, 54 í janúar 2019 og í apríl 2019 voru þeir 57, að því er fram kemur í svarinu.

Þá segir að breytingar hafi haft í för með sér fjölgun starfsmanna og er vísað meðal annars til þess að jafnréttismálin hafi verið flutt í ráðuneytið auk þess sem skipaður var skrifstofustjóri yfir nýrri skrifstofu jafnréttismála.

Á tímabilinu voru einnig flutt yfirlestrarverkefni vegna stjórnarfrumvarpa, stjórnartillagna og annarra stjórnarskjala frá Alþingi til ráðuneytisins „en við þá breytingu fluttust tvö stöðugildi til ráðuneytisins frá skrifstofu Alþingis í janúar 2018.“

„Framangreindar tölur endurspegla ekki fjölda stöðugilda en misjafnt er á milli ára hve margir starfsmenn eru í hlutastörfum eða í tímabundnum störfum. Á tímabilinu sem spurt er um hefur skipurit forsætisráðuneytisins tekið nokkrum breytingum,“ segir í svarinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert