Veronika S. Magnúsdóttir
Flogið var af stað með mjaldrasysturnar Little Grey og Little White frá Kína í gærkvöldi og er koma þeirra á Keflavíkurflugvöll væntanlega eftir hádegi í dag. Flogið verður með mjaldrana beint frá Sjanghæ til Keflavíkur og er áætlað að flugið taki um 11 klukkustundir en ferðalagið í heild sinni um 26 klukkustundir.
Á mánudag lá fyrir að rússnesk yfirvöld myndu gefa flutningsvél mjaldranna, Boeing 747-400 ERF, vöruflutningaþotu Cargolux, leyfi til að fljúga yfir lofthelgi Rússlands og stytti það áætlaðan flugtíma eilítið, að sögn Sigurjóns Inga Sigurðssonar, verkefnastjóra hjá sérverkefnadeild TVG-Zimzen.
Verkefnið er umfangsmikið: „Bandaríski flugherinn átti að vera í viðbragðsstöðu í dag, ef veðrið yrði slæmt myndi vél hersins fljúga með mjaldrana frá Keflavíkurflugvelli til Vestmannaeyja,“ segir Sigurjón en ákveðið var í gærmorgun að taka þann möguleika af borðinu, að því er fram kemur í umfjöllun um ferðalag mjaldranna í Morgunblaðinu í dag.