Katrín Einarsdóttir, einstæð tveggja barna móðir, fékk í dag afhenta lykla að fyrstu íbúðinni sem fer í leigu á vegum Bjargs íbúðafélags. Íbúðin er við Móaveg í Grafarvogi. Lyklaafhendingin var kærkomin: hún hefur búið um skeið heima hjá foreldrum sínum ásamt börnum sínum, fjögurra og tíu ára gömlum.
Með afhendingunni voru mörkuð tímamót í starfsemi Bjargs íbúðafélags, sem stofnað var af ASÍ og BSRB árið 2016. Þetta var fyrsta íbúðin sem fer á leigu. Og fleiri eru á leiðinni. 68 leigjendur alls fá afhentar íbúðir í júní og júlí, bæði nágrannar Katrínar við Móaveg og einnig í Asparskógum á Akranesi.
Þessum íbúðum, ásamt þeim 563 sem eru í byggingu til viðbótar á vegum félagsins, er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félagsmönnum í ASÍ og BSRB, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Og miðað er við að greiðslubyrði leigu fari ekki yfir 25% af heildartekjum leigjenda, að teknu tilliti til húsnæðisbóta.
Um 1.150 félagsmenn ASÍ og BSRB eru nú á biðlista eftir íbúðum „svo ljóst er að þörfin fyrir leiguhúsnæði til langs tíma á hagkvæmu verði er mikil,“ eins og kemur fram í tilkynningu frá Bjargi.
Til stendur að halda áfram uppbyggingu húsnæðis í samræmi við þörf og fjármagn. Sveitarfélög vinna húsnæðisáætlanir til að meta þörfina og leggur Bjarg að sögn áherslu á að eiga í góðu samstarfi við þau um frekari uppbyggingu á komandi árum. Fyrsta skrefið er stigið.
„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hér í dag afraksturinn af þeirri miklu vinnu sem unnin hefur verið á þeim þremur árum sem liðin eru frá því Bjarg var stofnað. Uppbygging félagsins sýnir að það er vel hægt að byggja upp leigufélög hér á landi sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Nú eru fyrstu leigjendurnir að flytja inn og við hlökkum til að bjóða mun fleiri velkomna í hópinn á komandi mánuðum og árum,“ er haft eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB, við tilefnið.