Nýir grænir skattar skili 2,5 milljörðum

Meirihluti fjárlaganefndar lagði í dag fram gagngera breytingartillögu á fjármálaáætlun, …
Meirihluti fjárlaganefndar lagði í dag fram gagngera breytingartillögu á fjármálaáætlun, sem ráðherra lagði fram í mars. Breytingartillagan endurspeglar gjörbreyttar horfur í efnahagsmálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gert er ráð fyrir að nýir grænir skattar verði lagðir á almenna urðun sorps frá heimilum og fyrirtækjum strax á næsta ári. Þá verði gjald lagt á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sem meðal annars er að finna í sumum kæliskápum. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs munu nema 2,5 milljörðum króna árið 2021, þegar innleiðingu er lokið.

Að þessu er stefnt samkvæmt breytingartillögu við fjármálaáætlun fjármálaráðherra fyrir árin 2020-2024 sem loks var lögð fram í þinginu í dag.

Breytingartillögunni er ætlað að endurspegla breytta, og verri, stöðu hagkerfisins en þjóðhagsspá Hagstofu gerir ráð fyrir 0,2% samdrætti í landsframleiðslu á árinu, samanborið við 2,5% hagvöxt sem lagt var upp með við upphaflega gerð fjármálaáætlunar í mars.

Seinni tíma útgjöld

Af ýmsu er að taka í breytingartillögu meirihlutans. Skattar eru hækkaðir og útgjöld skorin niður til að ná endum saman. Ýmsum verkefnum er seinkað til að spara fé næstu ár, án þess þó að sjá megi að gert sé ráð fyrir auknum útgjöldum til þeirra verkefna á seinni hluta fjármálaáætlunar.

Ríkissjóður verður rekinn nálægt núlli næstu tvö ár, í stað 30 milljarða árlegs afgangs. Tekjur ríkisins verða samkvæmt tillögunni 25 milljörðum króna lægri en áður var gert ráð fyrir, og helst svo hvert ár svo langt sem áætlunin nær. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins aukist um níu milljarða á næsta ári samanborið við fyrri áætlun og skýrist það af 11 milljarða hækkun í atvinnuleysistryggingasjóð og ábyrgðasjóð launa, sem viðbúið er að meira muni mæða á.

Hertu skattaeftirliti er ætlað að skila 300 milljónum aukalega á næsta ári, en þremur milljörðum á ári undir lok áætlunar, árið 2024.

Lækkun bankaskatts, sem framkvæma á í fjórum áföngum, verður frestað um eitt ár og mun það skila ríkissjóði aukalega um og yfir tveimur milljörðum á ári.

Fyrirhuguðum framkvæmdum við stjórnarráðsreit verður frestað þannig að þungi þeirra verður síðar en áður var gert ráð fyrir. Sparast þannig 200 milljónir á næsta ári og síðan 400 milljónir á ári næstu tvö ár. Ekki er þó að sjá að gert sé ráð fyrir að útgjöld aukist síðar, þegar farið verður í framkvæmdina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert