Eineltis- og áreitnisteymi Ráðhúss Reykjavíkurborgar rannsakar kvartanir skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, vegna framgöngu Vigdísar Hauksdóttur fulltrúa Miðflokksins í borginni. Tæplega 100 blaðsíðna erindi þess efnis barst Vigdísi með ábyrgðarpósti í gærkvöldi.
Helga Björg telur að sú framkoma flokkist undir einelti og hefur óskað eftir formlegri rannsókn Reykjavíkurborgar. Rúv greindi fyrst frá.
„Þetta snýst um þráhyggju embættismanns í minn garð,“ segir Vigdís Hauksdóttir við mbl.is. Í málinu segir Vigdís að hún hafi tekið afstöðu starfsmanns á gólfi gagnvart embættismanni í kerfinu og vísar til þess að dómur hafi fallið í héraðsdómi varðandi mál Helgu Bjargar. Vigdís vísar til þess að Helga hafi fengið skömm í hattinn fyrir framkomu sína gagnvart samstarfsmanni sínum. Í dómnum segir að Helga gæti ekki komið fram við fólk eins og dýr í hringleikahúsi.
Vigdís bendir á að Helga Björg sé ekki lengur aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, og sé á leið í ráðhúsið.
Í bréfinu kemur fram að Helga segist ekki oft hafa hitt Vigdísi en segir hana hafa lagt sig í einelti. „Ég veit ekki lengur hvernig einelti gengur fyrir sig.“ Í bréfinu er einnig skjáskot af um 70 færslum Vigdísar af tveimur Facebook-síðum hennar. „Það er búið að njósna um þessar síður.“
Spurð hvort hún hafi eitthvað sagt um konuna í færslum sínum segist Vigdís eingöngu hafa vísað í dómsorð héraðsdóms í máli Helgu.
Á borgarráðsfundi sem hefst klukkan níu í dag hyggst Vigdís leggja fram bókun um málið.