149. löggjafarþingi frestað fram í ágúst

Helga Bernódussyni voru þökkuð störfin þegar þinginu var slitið.
Helga Bernódussyni voru þökkuð störfin þegar þinginu var slitið. Ljósmynd/Skjáskot

Þingi var frestað þegar breytt fjármálaáætlun og -stefna höfðu verið samþykktar með meirihluta atkvæða þingmanna. „Þingstörfin hafa gengið greiðlega síðustu daga eftir að samkomulag náðist um hvernig þinglokum skyldi háttað,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Helga Bernódussyni fráfarandi skrifstofustjóra Alþingis voru þökkuð störfin. Hann hefur verið skrifstofustjóri frá 2005 og lætur nú af störfum. Ragna Árnadóttir tekur við embættinu 1. september.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði þinginu frestað. „Ég óska háttvirtum Alþingismönnum, starfsmönnum þingsins og landsmönnum öllum hamingjuríkra sumardaga,“ sagði hún.

Alls hafa 120 lög verið samþykkt á þinginu og 47 ályktanir. Þinghaldið stóð samtals í 865 klukkustundir á þessu þingi, tími sem sker sig úr í samanburði við önnur lönd, að sögn Steingríms. Hann hélt langa tölu um að Alþingi þyrfti að íhuga alvarlega ráðstöfun ræðutíma í tilteknum aðstæðum, ekki síst í ljósi framferðis Miðflokksmanna síðustu vikur.

„Það er óumflýjanlegt að fjölga verði starfsfólki Alþingis nema komi til breytinga á skipun mála hér,“ sagði Steingrímur, sem sagði að álagið væri langt fram úr hófi á almennum starfsmönnum þingsins. Svo mikið, raunar, að í vandræði stefndi með sumarleyfi sumra þeirra vegna úrlausnar fjölda mála sem biði þeirra.

Áður en kom að eiginlegri atkvæðagreiðslu var deilt nokkuð um fjármálaáætlunina og greidd atkvæði um breytingartillögur minnihlutans á henni. Þær voru allar felldar, eins og var viðbúið. 

Þinginu hefur verið slitið og er 149. löggjafarþingi Íslendinga þar …
Þinginu hefur verið slitið og er 149. löggjafarþingi Íslendinga þar með eiginlega lokið, að undanskildum framhaldsstubbi sem hefst í lok ágúst og lýkur 2. september, með atkvæðagreiðslu um þingsályktun um þriðja orkupakkann. Haraldur Jónasson/Hari

149. löggjafarþingi er slitið en ekki alveg lokið, þar sem framhaldsþingfundur verður haldinn í lok ágúst og byrjun september. Þinginu átti að vera frestað 6. júní en það fer eftir því hver er spurður hvort þinglokunum hafi frestað málþóf Miðflokksmanna eða tafir á afgreiðslu fjármálaáætlunar.

Á þessu öðru þingi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, formanni Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, hefur dregið til tíðinda á ýmsum vettvangi. Undanfarið hefur borið mest á málþófi Miðflokksmanna vegna þriðja orkupakkans og á þinginu hafa fallið ýmis lengdarmet, svo sem með lengsta þingfundi sögunnar og svo röðuðu Miðflokksmenn sér ofarlega á ræðukóngalistann.

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók til starfa í lok nóvember 2017.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert