Útgjöld ríkissjóðs aukin í stað þess að skila afgangi

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Ekki er gert ráð fyrir afgangi af rekstri ríkissjóðs næstu tvö árin, samkvæmt breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar á þingsályktunartillögu fjármálaráðherra um fjármálaáætlun fyrir næstu fjögur ár.

Tillögur að fjármálaáætlun og fjármálastefnu voru teknar út úr nefnd í gær og verða ræddar saman á Alþingi í dag.

Þingfundur stóð fram eftir kvöldi í gær. Þá var verið að ræða og afgreiða önnur mál en fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Meðal annars var lokið umræðu um fiskeldisfrumvörp, innflutning á hráu kjöti og sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Þingi frestað í kvöld?

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var ánægður með gang mála. Hann vonaðist til að hægt yrði að fresta þingi í kvöld en ef það tækist ekki á kristilegum tíma yrði það gert á morgun.

Í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði ekki rekinn með afgangi á næsta ári, með lítilsháttar afgangi árið 2021 en eftir það aukist afgangurinn. Þetta er mikil breyting því í tillögu fjármálaráðherra var gert ráð fyrir 26-29 milljarða króna halla næstu ár. Þá er útlit fyrir að ekki verði afgangur í ár.

Ráðstafanir mildaðar

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, segir að ákveðið hafi verið að nota áformaðan afgang til að milda ráðstafanir sem grípa hefði þurft til vegna samdráttar í hagkerfinu. Nefnir hann að tekjur ríkissjóðs minnki um 103 milljarða vegna samdráttarins. Nefndin hafi farið í saumana á útgjöldum til allra málefnasviða og haldið verði áfram uppbyggingu á þeim öllum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert