Starf Alþingis hefur orðið æ umfangsmeira og flóknara á tækniöld, hrein sérfræðivinna, og þingið stendur nú almennt lengur en áður. Slíkt kallar annaðhvort á fjölgun starfsfólks eða að þingstörf verði skipulögð betur og starfsáætlun virt.
Þetta segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. Síðasti þingfundur fyrir sumarfrí var í gær og hefur þingi nú verið frestað til 28. ágúst en þá er ráðgert að samþykkja þriðja orkupakka Evrópusambandsins og slíta svo þingi, áður en nýtt þing kemur saman 10. september.
Upphaflega stóð til að þingfrestun yrði 5. júní og því ljóst að veruleg röskun hefur orðið á áætlunum. „Það má segja að sumarleyfi séu í uppnámi hjá sumum okkar,“ segir Helgi aðspurður. Reynt sé að koma til móts við starfsmenn eftir því sem kostur er enda séu margir búnir að gera plön fyrir sumarið. Það sé þó vandkvæðum bundið enda mörg verkefni sérfræðibundin. „Það gengur því miður ekki að auglýsa bara eftir sumarmönnum,“ segir Helgi.
Þrátt fyrir að fundum þingsins hafi nú verið frestað er mikil vinna óunnin hjá starfsmönnum. Nauðsynlegt er að ganga frá lögum, lesa yfir þingræður, koma bréfum upp í ráðuneyti og fleira sem tilheyrir starfinu, og segir Helgi að sú vinna taki að lágmarki hálfan mánuð hjá mörgum starfsmönnum.
Reglubundið þinghald er á Alþingi fjóra daga vikunnar, alla virka daga nema föstudaga, og er það mun oftar en í nágrannalöndum okkar. Má sem dæmi nefna að sænska þingið fundar tvisvar í viku og í Þýskalandi er aðeins fundað á fimmtudögum, frá morgni til kvölds. Helgi bendir á að þess misskilnings gæti víða að starf þingmanna felist einkum í þingfundum, þegar raunin sé að bróðurparturinn af vinnu þingmanna séu aðrir nefndarfundir, aðrir fundir og svo auðvitað undirbúningur.
Alls hefur þing fundað 129 sinnum frá því það var sett 11. september í fyrra, og hafa þeir staðið í rúmar 865 klukkustundir, en þeirra lengstur var þingfundur um þriðja orkupakkann sem stóð í 24 klukkustundir og 16 mínútur, með hléum.
Það þingmál sem fékk mesta umræðu var einmitt téður orkupakki en hann var ræddur í um 138 klukkustundir. Af 262 frumvörpum urðu 120 að lögum, 138 óútrædd, eitt afturkallað, tveimur vísað til ríkisstjórnar, en aðeins eitt fellt.
Af 53 munnlegum fyrirspurnum var 49 svarað en ein afturkölluð. Þá voru 515 skriflegar fyrirspurnir lagðar fram, 340 þeirra svarað og 15 afturkallaðar en afgangurinn, 161 fyrirspurn, bíður svars.