Meirihluti Íslendinga vill hafa sterkt heilbrigðiskerfi sem er fjármagnað af hinu opinbera. Heilbrigðisstefna til ársins 2030 tekur raunverulega ekki afstöðu til opinbers reksturs eða einkareksturs í heilbrigðisþjónustu. Fyrrverandi landlæknir segir sérfræðilækna bæði vilja éta kökuna og halda henni óskertri.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Birgis Jakobssonar, aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlæknis, í Morgunblaðinu í dag en yfirskrift greinarinnar er „Heilaþvottur“.
Birgir svarar viðtali við bæklunarlæknana Ágúst Kárason og Ragnar Jónsson sem birtist í Morgunblaðinu um síðastliðna helgi. Birgir segir augljóst eftir lesturinn að hvorugur þeirra hafi lesið heilbrigðisstefnu til ársins 2030.
„Hvergi í heilbrigðisstefnu er gerð aðför að þeirri starfsemi sem fram fer í Orkuhúsinu, eins og þeir félagar virðast telja,“ skrifar Birgir. Hann bætir við að hvergi í stefnunni sé talað um að flytja eigi minni háttar aðgerðir eins og að taka skrúfur úr fæti eða inngrónar táneglur inn á skurðstofur sjúkrahúsanna enda væri slíkt fáránlegt.
Ekki væri heldur talað um að flytja allar 500.000 heimsóknir til sérfræðinga á ári inn á göngudeildir spítalanna, eins og Ragnar og Ágúst tala um.
Birgir fer stuttlega yfir heilbrigðisstefnuna. Þar segir hann meðal annars að rík áhersla sé lögð á að mönnun heilbrigðiskerfisins sé sambærileg við það sem best gerist erlendis og að allar heilbrigðisstéttir vinni saman að málefnum sjúklinga í teymisvinnu.
Lögð sé áhersla á mikilvægi þess að kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu séu skilvirk, gerðar séu kröfur um aðgengi og gæði og að kaupin séu byggð á greiningu á þeirri þörf sem fyrir liggur og greiningu á kostnaði þeirrar þjónustu sem veitt er.
„Það virðist helst vera þetta sem fer fyrir brjóstið á sérgreinalæknum, en eins og allir vita og Ríkisendurskoðun hefur bent á hafa þeir haft sjálfdæmi um það hvaða þjónusta er veitt og af hverjum. Reikningurinn hefur verið sendur á ríkið óháð því hvort þörf hefur verið á þjónustunni eða ekki. Þjónustan er veitt á forsendum þjónustuveitenda en ekki eftir þörfum notenda. Þá er greinilegt að sérgreinalæknar líta á það sem ógn við sína hagsmuni, þegar sagt er í heilbrigðisstefnu að styrkja eigi göngudeildarstarfsemi sjúkrahúsanna, ekki síst á Landspítala,“ skrifar Birgir.
Hann segir þetta gert til að auka markvisst aðgengi landsmanna að þjónustu sérgreinalækna og að sjúklingar eigi aðgang að þessari þjónustu óháð því hvort þeir hafi legið inni á spítalanum eða ekki.
„Í þessu sambandi má nefna að ófáir sjúklingar með slitgikt í hnjám og mjöðmum hafa notið þjónustu bæklunarlækna í Orkuhúsinu um langa hríð til þess að átta sig á því þegar komið er að liðskiptum að slíkar aðgerðir eru ekki gerðar þar og verða þá að bíða mánuðum saman eftir tíma á göngudeild þess spítala sem framkvæmir þessar aðgerðir til þess eins að komast á biðlista eftir aðgerð,“ skrifar Birgir.
Hann bendir á að Ragnar og Ágúst fjalli um að sjúklingar þeirra geti þurft á þjónustu opinbera kerfisins að halda, ef óvænt atvik koma upp. Birgir segir að þeir geti þess ekki að erlendis greiði einkaaðilinn fyrir kostnað sem hlýst af mistökum. „Sérgreinalæknar vilja bæði éta kökuna og halda henni óskertri.“
Forsendur opinbers reksturs og einkareksturs verði að vera þeir sömu en Birgir segir markvisst hafi verið sparað í opinbera kerfinu undanfarna tvo áratugi á meðan einkarekstur hafi fengið fríbréf.
„Núverandi heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að auknu fé í heilbrigðiskerfið verði varið til þess að styrkja grunnstoðir opinberu heilbrigðisþjónustunnar á öllu landinu, sem farið hefur halloka fyrir vaxandi einkavæðingu á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugi. Ég er sannfærður um að meirihluti þjóðarinnar er hlynntur þeirri áherslu.“