Kirkjuhúsið á Laugarvegi skal seljast

Kirkjuhúsið á Laugavegi 31 er í eigu Kirkjumálasjóðs. Nú mun …
Kirkjuhúsið á Laugavegi 31 er í eigu Kirkjumálasjóðs. Nú mun hann selja eignina, þar sem biskupsstofa er að færa sig annað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öll starfsemi biskupsstofu verður í haust færð á 3. hæð í nýlegri byggingu við Katrínartún 4 á Höfðatorgi. Það þýðir að Kirkjuhúsið við Laugaveg verður selt, samkvæmt ákvörðun kirkjuráðs.

Guðmundur Þór Guðmundsson, skrifstofustjóri hjá biskupsstofu, segir að eftir að flutningur biskupsstofu í annað húsnæði hafi verið staðfestur hafi legið fyrir að Kirkjuhúsið yrði selt.

Kirkjuhúsið hefur áður verið sett á sölu en af einni ástæðu eða annarri hafa kaup á því aldrei gengið í gegn. Nú er það svo að biskupsstofa er að flytja starfsemina sína, sem skilur húsið eftir autt. Nú verður húsið því selt, en síðast var „niðurstaða kirkjuráðs að taka ekki þeim tilboðum sem sett voru fram,“ eins og Guðmundur lýsir því.

Húsið er á sölu á fasteignavef mbl.is. Ekkert verð er gefið upp en fasteignamatið sagt vera 625 milljónir. Fasteignamatið hækkar og hækkar, enda Laugavegurinn æ verðmætara svæði vegna ferðamanna. Árið 2016 var fasteignamat hússins 362 milljónir og árið 2017 434 milljónir.

Einhverjir hafa klórað sér í kollinum yfir því að kirkjan væri með skrifstofustarfsemi í eins dýru húsnæði í gegnum árin. Nú breytist það. „Það hefur breyst mjög margt síðan 1995 og við sjáum það alveg,“ segir Guðmundur Þór. „Ákvörðunin um að fara er af ýmsum ástæðum tekin. Þessi hluti borgarinnar hefur breyst mjög mikið á þessum tíma,“ segir Guðmundur, sem hefur starfað í byggingunni alllengi. 

Þó að það segi einnig í frétt frá 2017, þá virðist nú raunverulega full alvara manna að selja Kirkjuhúsið loksins. Það er Kirkjumálasjóður sem á húsið og má vænta að það sé farið að skoða tilboð, enda eignin komin á sölu.  

Um það hvað verður um verslunina á neðstu hæð kveðst Guðmundur ekki geta tjáð sig með góðu móti, enda hún ekki á vegum biskupsstofu. Líklegt má þó telja að sá rekstur fari sömu leið og biskupsstofa, ef nýir eigendur eignast húsið.

Nútímalegra húsnæði

Biskupsstofa hefur sem sagt verið með skrifstofustarfsemi sína á fjórum hæðum í Kirkjuhúsinu frá því 1995 en húsið er byggt um 1928. Auk starfsmanna biskupsstofu verða aðrir starfsmenn yfirstjórnar þar áfram til húsa eða alls um 36 starfsmenn. Biskupsstofa sér um almenna þjónustu við söfnuði landsins, starfsmannahald presta, umsýslu með fjármunum kirkjunnar og svo framvegis.

Einnig hefur þjónustumiðstöð biskupsstofu haft aðsetur í Háteigskirkju en verður nú færð yfir í Katrínartún.

„Við teljum okkur þurfa að fara í nútímalegra húsnæði. Við sjáum marga kosti í því að allir starfsmennirnir séu sameinaðir á einn stað en ekki á mörgum hæðum og stöðum. Það er betra að vera á einni hæð, ef það er hægt,“ segir Guðmundur Þór um ákvörðunina að fara í nýtt húsnæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert