Gengið verður frá skipan nýs seðlabankastjóra í næsta mánuði, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Eitt fyrsta verkefni hans verður að leiða sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV. Áður hafði verið greint frá því að nýr bankastjóri yrði skipaður 20. ágúst.
Hæfisnefnd hefur metið fjóra umsækjendur um starf seðlabankastjóra mjög hæfa. Það eru þeir Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Jón Daníelsson, prófessor við LSE í London, og Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra og fyrrverandi aðalhagfræðingur og aðstoðarseðlabankastjóri.
Hæfisnefndin á eftir að skila endanlegri umsögn til forsætisráðherra en frestur umsækjenda til að gera athugasemdir við hæfismat nefndarinnar rann út 19. júní. Það er forsætisráðherra sem að lokum skipar seðlabankastjóra.