Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti, segir ákjósanlegt að skóladagur unglinga myndi hefjast klukkan 10, jafnvel 11. Hún segir að unglingar verði seinna syfjaðir en fullorðnir og því þyrftu unglingar að sofa til a.m.k. 9 eða 9.30 á morgnana.
Margir skólar hefja kennslu síðar en klukkan átta á morgnana og eru ýmsar ástæður fyrir því. Í Álftanesskóla hefst kennsla á þremur mismunandi tímum vegna byggingarframkvæmda og til að létta á umferð í Garðabæ byrja skólar þar á mismunandi tímum.
Í Grunnskóla Vestmannaeyja mun skóladagurinn hefjast klukkan 8.10 í stað 8 frá og með haustinu. Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri skólans, segist vonast eftir meiri ró í skólabyrjun með þessari breytingu, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.