Tengist „vaxandi hernaðarumsvifum Rússa“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og formaður utanríkismálanefndar, segir að aðgerðirnar …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og formaður utanríkismálanefndar, segir að aðgerðirnar á Keflavíkurflugvelli á vegum hersins hafi verið viðbúnar. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Umhverfið er breytt í öryggismálum á norðanverðu Atlantshafi. Staðan þar er til dæmis breytt í þeim skilningi að fylgst er betur með þróun öryggismála á norðurslóðum. Þar eru auðvitað vaxandi hernaðarumsvif Rússa, sem NATO hefur fylgst vel með. Þau auknu umsvif hafa verið í forgrunni frá því 2014,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar.

Sagt hefur verið frá því að Bandaríkjaher hefur í hyggju að hefja uppbyggingu innviða á Keflavíkurflugvelli, sem verða fyrstu aðgerðir þeirrar gerðar frá 2006. Fyrirhuguð uppbygging er gríðarlega umfangsmikil, eins og má lesa um í fjárhagsáætlun hersins, og mun meðal annars felast í uppbyggingu innviða sem munu gera Bandaríkjunum kleift að reka á norðurslóðum færanlega herstöð. Á sama tíma var því breytt á síðustu stundu í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 2024, að fleiri hundruðum milljóna yrði varið úr ríkissjóði í að uppfylla skuldbindingar Íslendinga um innviði hér á landi fyrir starf Atlantshafsbandalagsins, NATO.

„Við þurfum sjálf að bregðast við ákveðinni uppsafnaðri viðhaldsþörf,“ segir Áslaug en fjármagnið sem lagt var til þessara mála í nýrri fjármálaáætlun voru 300 milljónir.

Uppbyggingin viðbúin

„Þetta ætti ekki að koma á óvart eftir að útboðum var lokið vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli,“ segir Áslaug. Hún vísar þar einnig til yfirlýsingar sem undirrituð var á milli Bandaríkjanna og Íslands árið 2016 um tvíhliða samstarf í varnarmálum. „Það er auðvitað eðlilegt og mikilvægt að framkvæmd varnarsamningsins sé tryggð,“ segir Áslaug.

Áslaug segir að uppbyggingin nú snúist, ásamt auknum hernaðarsvifum Rússa og á vissan hátt tengt þeim, um mikilvægi opinna siglingaleiða og flutninga um Norður-Atlantshafið. „Við höfum séð það í æfingum, viðveru og eftirliti NATO á þessum slóðum,“ segir hún.

Hún segir að uppbyggingin hafi verið viðbúin og snúi að breyttri stöðu á norðurslóðum. „Það er kunnugt að umsvif Bandaríkjahers í Norður-Atlantshafi hefur aukist. Þeir hafa verið að annast lofthelgisgæslu hér, meðal annars,“ segir hún.

Bandaríski herinn er ekki á leið til Íslands

Áslaug segir að framlag Íslendinga, umræddar 300 milljónir, séu einungis framlag Íslendinga til þess að mæta skuldbindingum sínum, svo NATO geti haldið áfram óbreyttri starfsemi hér á landi. „Það var einfaldlega lagt mat á viðhaldsþörfina og með þessu erum við einfaldlega að tryggja óbreytta starfsemi með viðhaldi á mannvirkjum hér á landi,“ segir hún.

Með uppbyggingunni á Keflavíkurflugvelli, sem 300 milljónirnar úr ríkissjóði eru visst mótframlag til, er Áslaug þó á því að ekki megi segja að hér sé kominn her. „Bandaríski herinn er ekki á leið til Íslands. Það eru ekki til neinar áætlanir um varanlega viðveru hans á Íslandi Það eru engar stórar breytingar sem fylgja þessu. Þetta er bara hluti af stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum, að tryggja í ljósi herleysis samt sem áður góðar varnir á Íslandi og í nærumhverfi, en á sama tíma taka þátt í tvíhliða samningum okkar við Bandaríkin og NATO,“ segir hún.

Gamla herstöðin við Keflavík. Ekki stefnir í að herinn komi …
Gamla herstöðin við Keflavík. Ekki stefnir í að herinn komi aftur til að vera, að sögn Áslaugar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum hluti af þessari nýju mynd sem blasir við á norðurslóðum. Hingað eru að koma til landsins flugsveitir í loftrýmisgæslu þrisvar á ári og kafbátarleitarvélar hafa aukið viðveru sína meðal annars og þessi staða var sérstaklega rædd 2016 þegar áréttaðar voru skuldbindingar beggja ríka í öryggissamstarfi,“ segir Áslaug og á við Bandaríkin og Ísland.

Hvort hernaðarumsvif eigi eftir að aukast enn frekar hér á landi segir Áslaug ekkert hægt að fullyrða um það. „Samstarfið þarf bara að þróast í takt við þær aðstæður sem eru uppi hverju sinni,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert