Samtök iðnaðarins mótmæla þeim tillögum Embættis landlæknis að auka skattheimtu á sykraða og ósykraða gosdrykki auk sælgætis til að draga úr sykurneyslu landsmanna.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SI.
Þar segir að tillögurnar byggi á könnun sem gerð var á mataræði Íslendinga fyrir áratug. Ljóst sé að margt hafi breyst á þeim tíma sem liðinn er. Markaðshlutdeild sykraðra gosdrykkja hafi dregist stórlega saman á síðustu árum um leið og markaðshlutdeild sykraðra drykkja og vatns hafi aukist.
„Þessi þróun er einungis hluti af miklum breytingum á lífsháttum og matarvenjum landsmanna. Neytendur hafa í miklum mæli snúið sér að hollari valkosti. Það er því löngu tímabært að kannað verði að nýju hvernig matarvenjum landsmanna er háttað,“ kemur fram í tilkynningunni.
SI telja að sérstök skattlagning einstakra vöruflokka feli í sér mismunun og skerði samkeppnisstöðu þeirra greinar sem í hlut á. Samtökin benda á að stjórnvöld hafi reynt bæði sérstaka skattheimtu af stökum vöruflokkum og almenna skattlagningu á sykri í matvælum til að stýra neyslu almennings. Hvorugt hafi skilað þeim árangri sem stefnt var að og einungis haft í för með sér kostnað og óhagræði sem komi niður á fyrirtækjum og almenningi.
„Samtök iðnaðarins telja það fráleitt að taka aftur upp vörugjöld á matvæli með tilheyrandi kostnaði. Ekki aðeins hækkar það verð þeirra vara sem fyrir því verða heldur eykur það kostnað við kerfið sem slíkt sem á endanum kemur niður á samkeppnishæfni fyrirtækja og eykur kostnað neytenda og hins opinbera.“