„Hernaður er ömurlegasta stig mannlegrar tilveru og grátlegt er að horfa upp á þá gegndarlausu sóun sem á sér stað í hernaðaruppbyggingu í heiminum, með fjármunum sem mætti svo hæglega nýta til annarra og betri hluta,“ skrifar Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, á Facebook.
Bandaríkjaher áformar sjö milljarða króna mannvirkjauppbyggingu á Keflavíkurflugvelli á næsta ári, samkvæmt því sem fram kemur í fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir árið 2020.
Í breyttri fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi rétt fyrir sumarfrí var kveðið á um að 300 milljónum yrði varið í uppbyggingu á innviðum í tengslum við skuldbindingar Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu. Voru milljónirnar færðar frá fyrirhugaðri þróunarsamvinnu.
Kolbeinn skrifar að það sé ömurlegt að fylgjast með fréttum af auknum umsvifum Bandaríkjahers á Íslandi. Það sé slæmt fyrir þá sem öðrum þræði hófu pólitísk afskipti með baráttu gegn her og stríðsrekstri og ekki síður þau sem fylgist áhyggjufull með þróun alþjóðamála þessi misserin.
„Boðaðar framkvæmdir Bandaríkjahers byggja á varnarsamningnum milli Íslands og Bandaríkjanna en einnig aðild Íslands að Nató, þar sem litið hefur verið svo á að helsta framlag Íslands til bandalagsins sé að leggja til land og aðstöðu fyrir hernaðartengda starfsemi. Varnarsamningurinn ásamt viðaukum hans og bókunum, gefur Bandaríkjastjórn nánast sjálfdæmi um þá aðstöðu sem her hennar hefur hér til yfirráða undir yfirskini loftrýmisgæslu og kafbátaleitar,“ skrifar Kolbeinn.
Hann hefur alla tíð talið að varnarsamningurinn og Nató-aðild Ísland skapi þjóðinni frekar ógn en öryggi. Sú skoðun hans hefur einungis styrkst í ljósi þeirra afla sem fara með völdin í Bandaríkjunum.
„Það er vond staða að Íslendingar kjósi í sínum öryggismálum að gefa Bandaríkjastjórn óútfyllta ávísun hvað varðar hernaðarviðbúnað hér á landi. Og ég tel að stór hluti landsmanna sé mér sammála í því efni,“ skrifar Kolbeinn og heldur áfram:
„En fíllinn í stofunni eru Nató-aðildin og varnarsamningurinn við Bandaríkin, herveldis sem virðist nú róa öllum árum að því að efna til þriðju heimsstyrjaldarinnar við Persaflóa. Ef staða Íslands sem auðsveips fylgiríkis Bandaríkjanna á að breytast, verðum við að þora að höggva á þessi tengsl. En til þess þurfa fleiri stjórnmálahreyfingar að leggjast á árarnar og taka undir kröfuna um Ísland úr Nató – herinn burt.“