Fimm starfsmönnum sagt upp á Þjóðskrá

Þjóðskrá Íslands er í Höfðaborg í Reykjavík.
Þjóðskrá Íslands er í Höfðaborg í Reykjavík. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fimm starfsmönnum Þjóðskrár Íslands var sagt upp störfum í dag vegna þrenginga í rekstri og fækkun verkefna. Þeir eru með nokkurra ára starfsreynslu þar af hefur einn starfsmaður unnið hjá stofnuninni í yfir áratug. Á Þjóðskrá Íslands starfa 115 manns. 

„Þetta eru aðgerðir sem þarf að fara í vegna þrenginga í rekstri. Þá þarf að meta og skoða hvaða störf er mögulegt að leggja niður með hliðsjón af því að stofnunin sinni hlutverki sínu og haldi sama þjónustustigi“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Ísland.

Hún bendir á að á þessu ári er stofnunin með lægri fjárheimildir en á því síðasta. Launagjöld hafa verið umfram rekstraráætlun og sértekjur lægri. Helmingur rekstrarkostnaðar Þjóðskrár Íslands er rekinn af sértekjum og hafa þær verið lægri en rekstraráætlun. Hinn helmingurinn er fjárframlag frá ríkinu, að sögn Margrétar.  

Margrét bendir á að ástæðan sé einnig að sum innanhússverkefnin eru að klárast og færri verkefni séu á borði stofnunarinnar. 

Gert er ráð fyrir að fólk vinni uppsagnarfrestinn sem er þrír mánuðir en leitað er eftir samkomulagi við fólk um starfslok. 

„Þetta er alltaf mjög erfið ákvörðun og sú staða sem enginn forstöðumaður vill mæta. Þegar þessi rekstrarstaða blasir við og stefnir í umtalsverðan halla í árslok verður forstöðumaður samkvæmt lögum um opinber fjárlög að grípa til aðgerða. Það var það sem var gert," segir Margrét. 

Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands.
Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert