Fulltrúar Landverndar munu síðar í dag afhenda undirskriftir rúmlega fimmþúsund Íslendinga sem vilja að friðlýsingu Drangajökulsvíðerna, sem innifelur athafnasvæði Hvalárvirkjunar, verði hraðað. Fer hópurinn fram á að hægt verði að leggja friðlýsinguna fyrir Alþingi á haustþingi.
Jafnframt er biðlað til hreppsnefndar Árneshrepps að taka til skoðunar friðlýsingu á óbyggðum víðernum á skipulagssvæði hreppsins í stað Hvalárvirkjunar.
VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja stíflur við fimm fjallavötn. Landeigendur segja Vesturverk og Árneshrepp hafa notað röng landamerki við skipulagningu Hvalárvirkjunar, en þinglýst landamerkjabréf frá 1890 staðfestir að vatnasvið Eyvindarfjarðarvatns sé innan Drangavíkur. Þá hafa landeigendur ekki veitt heimild fyrir virkjanaframkvæmdum á jörðinni.
VesturVerk segist hins vegar ekki hafa fengið neinar upplýsingar um að landamerki í Ófeigsfirði séu með þeim hætti sem landeigendur Drangavíkur lýstu í kæru sinni til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem lögð var fram á mánudag.
Undirskriftirnar verða afhentar umhverfisráðherra og forstjóra Umhverfisstofnunar í húsnæði umhverfisráðuneytisins klukkan 16:30 í dag. Undirskriftunum var safnað á heimasíðu Landverndar, og enn er hægt að skrifa undir.