„Þetta er óþolandi“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, er ekki sáttur við svar dómsmálaráðherra …
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, er ekki sáttur við svar dómsmálaráðherra sem vill ekki bera ábyrgð á því að birta upplýsingar um kaupendur fullnusteigna Íbúðalánasjóðs. mb.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, treystir sér ekki til að birta opinberlega hverjir voru kaupendur 3.600 eigna sem Íbúðalánasjóður gerði upptækar vegna vanskila lántakenda. Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðherrans við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins.

„Það er alveg ljóst að ég er ekki sáttur við þetta svar,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. Hann gefur lítið fyrir rökstuðning ráðherrans og bendir á að þinglýstir kaupsamningar séu opinber gögn. „Réttur þingmanna til fyrirspurna er stjórnarskrávarinn.“

Fram hefur komið í umfjöllun Morgunblaðsins að frá ársbyrjun 2008 til fyrsta desember 2017 seldi Íbúðalánasjóður fjögur þúsund fullnustueignir.

Vill ekki bera ábyrgð á birtingu

„Í fyrirspurninni er óskað eftir miklu magni persónugreinanlegra upplýsinga og vafi er á hvort opinber birting þeirra samræmist lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga,“ segir í svarinu.

Á sama tíma er tekið fram að ráðherra sé heimilt að afhenda Alþingi umbeðnar upplýsingar, en að með því að svara fyrirspurninni formlega sé um að ræða opinbera birtingu á vef Alþingis. Þá segir ráðherrann að henni sé „ekki fært að afhenda þær Alþingi til opinberrar birtingar án þess að þingið takið ábyrgð á og afstöðu til lögmætis slíkrar birtingar.“

Þá kveðst Þórdís Kolbrún reiðubúin að afhenda upplýsingarnar án þess að þær verði birtar með því að afhenda viðeigandi þingnefndum upplýsingarnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upplýsingarnar eru opinberar

„Þetta eru sömu rök og félagsmálaráðherra beitti þegar hann svaraði þessu ekki. Benda Alþingi á að gera þetta og hitt og þetta er bara óþolandi,“ segir Þorsteinn. „Alþingi á ekki að leita eftir einu né neinu í þessu sambandi. Ráðherra á einfaldlega að svara þegar Alþingi spyr, það er bara svoleiðis. Alþingi á ekkert að fara að ritstýra svörum ráðherra, hver sem hann er.“

„Þessi gögn sem ég spyr um eru opinber. Þinglýst afsöl eru opinber skjöl, liggja frammi hjá sýslumannsembættum út um allt land,“ útskýrir þingmaðurinn.

„Það getur enginn neitað fólki að fara til sýslumanns og sjá þinglýstan kaupsamning. Í sjálfu sér gæti maður farið og beðið um hitt og þetta, en það tekur tíma þegar um er að ræða 3.600 stykki,“ bætir hann við.

„Eitthvað sem þolir ekki ljós“

Þorsteinn gefur lítið fyrir rök ráðherrans um persónuverndarsjónarmið. „Þó að það sé verið að vitna í persónuverndarlög er ekki búið að sækja eftir áliti Persónuverndar. Ráðherra hefur rúmt umboð til þess að svara og ákveður að gera það ekki. Ég lít svo á að þarna sé verið hindra það að menn komist að þvi hvað er þarna um að vera.“

„Þegar félagsráðherra svaraði mér á sínum tíma var hann búinn að spyrja Persónuvernd og Persónuvernd tók ekki afstöðu. […] Þannig að það var alfarið á valdi ráðherra – alveg eins og nú – að birta þetta svar og fyrst að tveir ráðherrar vilja ekki birta þetta svar sem varðar 3.600 Íslendinga, þá er þarna eitthvað sem ekki þolir ljós. Maður getur ekki túlkað þetta öðruvísi,“ segir þingmaðurinn.

Hann segist nú íhuga næstu skref í málinu og mun taka ákvörðun eftir helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert