„Forrest Gump“ hleypur þvert yfir landið

Ofurhlauparinn leggur af stað í langferð á morgun, þvert yfir …
Ofurhlauparinn leggur af stað í langferð á morgun, þvert yfir Ísland, frá austri til vesturs. Ljósmynd/Jamie Ramsay

„Ég vonast til að hlaupa 50 kílómetra á dag,“ segir breski ofurhlauparinn Jamie Ramsay. Hann mun hefja hlaup þvert yfir Ísland á morgun, frá austri til vesturs, en heildarvegalengd hlaupsins eru 700 kílómetrar. Hlaupið minnir óneitanlega á ævintýri Forrest Gump í samnefndri kvikmynd.

Hann skokkar af stað frá Seyðisfirði og ætlar að ljúka hlaupinu í Keflavík. Ramsay segist ekki gera of mikil plön áður en lagt er stað í hlaup af þessu tagi og tekur fram að hann þiggi matarframlög þeirra sem keyri framhjá honum með þökkum.

Leiðin sem Ramsay fer.
Leiðin sem Ramsay fer. Ljósmynd/Jamie Ramsay

Hlakkar til útiveru á björtum kvöldum

Ég lít þannig á að maður eigi að leyfa ævintýrunum að þróast,“ segir Ramsay. Hann bætir við að auðvitað þurfi hann að vera í góðu líkamlegu ástandi, hafa réttan búnað með sér og hugarfar til að standast þessa miklu þrekraun.

„Ég ætla að skokka eins lengi og ég get á hverjum degi og hlakka til að vera úti á björtum kvöldum og nóttum,“ segir Ramsay. Hann vonast til að ljúka hlaupinu 14. júlí en segist þó gera ráð fyrir að þriggja daga „skekkjumörkum“.

„Ef ég næ ekki að klára hlaupið lít ég ekki svo á að mér hafi mistekist heldur lít ég á það sem tækifæri til að læra og þróast,“ segir Ramsay.

Fannst 10 kílómetrar mikið í byrjun

„Meðaljóninum“ þykir ágætt að hlaupa 10 kílómetra og Ramsay segir að þegar hann byrjaði að skokka hafi honum fundist 10 kílómetrar löng vegalengd. Ramsay áttaði sig fljótlega á því að hann gæti hlaupið lengra.

Ramsay á hlaupum í Ölpunum.
Ramsay á hlaupum í Ölpunum. Ljósmynd/Jamie Ramsay

Fyrir fjórum árum hljóp hann 17.000 kílómetra þvert yfir N-Ameríku á 367 dögum. „Í stað þess að hugsa að þetta væri komið gott langaði mig að vita hvað ég gæti gert,“ segir Ramsay sem hefur síðan þá stöðugt ögrað sjálfum sér.

Hann hefur meðal annars hlaupið yfir 26 þúsund kílómetra í 26 mismunandi löndum.

Annar hlaupagarpur, kvikmyndapersónan fræga Forrest Gump, kemur upp í huga blaðamanns þegar hann leiðir hugann að svona löngu hlaupi. Ramsay segir það ekkert nema sjálfsagt að kalla hann „Forrest Gump“.

„Hann er einn þeirra sem veitir mér innblástur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert