VesturVerk hefur sótt um framkvæmdaleyfi til þess að setja upp allt að 80 metra hátt rannsóknarmastur ásamt mælingarbúnaði við Eyrarfjall. Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar frestaði afgreiðslu erindisins.
VesturVerk áformar nú þegar að reisa Hvalárvirkjum, en framkvæmdarleyfi fékkst frá Árneshreppi fyrr í mánuðinum, áður en landeigendur í Drangavík kærðu leyfisveitinguna til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Í umsókn VesturVerks segir að tilgangur rannsóknarinnar sé að auka þekkingu á aðstæðum á svæðinu til að skapa grundvöll fyrir áætlanagerð á mati á fýsileika vindorkuvers.
Um er að ræða grindar- eða túbumastur sem er stagað niður með vírum í steypta undirstöðu eða jarðakkeri.
VesturVerk segir í umsókn sinni að allt að 80 metra hátt rannsóknarmastur sem reist er tímabundið á tilgreindu svæði á Eyrarfjalli sé ekki talið hafa áhrif á nærliggjandi svæði. Ef að til vindnýtingar kæmi sé það ekki heldur talið hafa umsvifamikil áhrif á aðra starfsemi í framtíðinni. Beislun vindorku sé þó ný á Íslandi og því sé mikilvægt að velta fyrir sér bæði kostum og göllum.
Þá tilgreinir VesturVerk bæði kosti og galla vindmylla í umsókninni. Á meðal galla eru áhrif á landslagið, sjón- og hljóðmengun, skuggaflökt og áhrif á dýralíf.
Þá eru fjölnýting lands, endurbættir raforku innviðir, raforkuöryggi og frekari uppbygging á meðal þeirra kosta sem nefndir eru.