Magnús Geir sækir um sem þjóðleikhússtjóri

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. mbl.is/Þórður

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur sótt um stöðu þjóðleikhússtjóra. Frá þessu er greint í frétt á vef Ríkisútvarpsins, en athygli vekur að ekki náðist í Magnús við vinnslu fréttarinnar. Hann greindi starfsmönnum ríkisútvarpsins frá þessu í tölvupósti sem sendur var út í morgun.

Magnús hefur gegnt stöðu útvarpsstjóra frá árinu 2014 en var áður leikhússtjóri Borgarleikhússins, og Leikfélags Akureyrar þar áður. Hann er menntaður í leikhúsfræðum frá Háskólanum í Wales og hefur auk þess MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Í tölvupósti til starfsmanna segist hann „bjartsýnn um að fá starfið og stoltur af þeim árangri sem við [starfsmenn RÚV] höfum náð í sameiningu á síðustu misserum“. Leikhús hafi alltaf haft stóran sess í hjarta hans og því hafi hann ákveðið að sækja um starf þjóðleikhússtjóra.

Umsóknarfrestur um starfið rennur út í dag, en nýr þjóðleikhússtjóri tekur til starfa um áramót. Meðal annarra umsækjenda eru Ari Matthíasson, núverandi þjóðleikhússtjóri, og Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona, en endanlegur listi umsækjenda verður birtur þegar umsóknarfrestur er liðinn.

Þá hefur Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri sótt um stöðu Þjóðleikhússtjóra. Þetta kom fram í tölvupósti sem hún sendi starfsfólki sínu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert