Samtökin Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, fordæma brottvísun flóttabarna sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, eins og brottvísun hinna afgönsku Mahdi og Ali og föður þeirra, sem fyrirhuguð er á næstu dögum.
Það gerir Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar líka.
Brottvísuninni sem um ræðir var frestað til bráðabirgða vegna andlegra veikinda Mahdi, sem fæddur er 2008. Til stendur þó að vísa feðgunum úr landi brátt, þó ekki sé vitað hvenær það verður nákvæmlega.
Solaris skorar á stjórnvöld að snúa þessari ákvörðun við og sjá til þess að Mahdi fái þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarf nauðsynlega á að halda. Fyrir liggur að drengurinn fékk taugaáfall, meðal annars vegna yfirvofandi brottvísunar.
„Mahdi, sem er fæddur árið 2008, og Ali, sem er fæddur árið 2011, eru bræður sem aldrei hafa upplifað annað en að vera á flótta. Þeir hafa búið á götunni, verið svangir, ekki gengið í skóla, búið við skort á heilbrigðis- og félagsþjónustu og ekki fengið tækifæri til þess að þroskast og lifa eins og önnur börn. Síðan þeir komu til Íslands hafi þeir þó loksins upplifað annan raunveruleika og borið sig ágætlega, eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Þar til vísa átti þeim úr landi í nótt. Þá fékk eldri bróðirinn, Mahdi, taugaáfall og brotnaði niður,“ segir í tilkynningu frá Solaris.
„Í gær þurfti 10 ára drengur á flótta að leita á bráðamóttökudeild vegna ofsakvíða - hans, 9 ára bróður hans og föður bíður einnig brottvísun til Grikklands á næstu dögum,“ segir Logi Einarsson í Facebook-færslu.
Hann skorar á ríkisstjórnina að falla frá fyrirhuguðum breytingum á útlendingalögum, „sem skerða verulega réttindi og kjör umsækjenda um alþjóðlega vernd“. Þau lög, segir Logi, „munu hafa í för með sér að það verði enn auðveldara fyrir stjórnvöld að senda fjölskyldur aftur til landa eins og Ungverjalands og Grikklands þar sem aðstæður eru óviðunandi.“
„Það er skylda stjórnvalda að meta það sem barni er fyrir bestu. Við getum vel leyft þessum börnum að vera. Hvort ætlum við að vera lítil þjóð eða stór?“ spyr hann.
Hann tekur undir með UNICEF, sem skorar á stjórnvöld að taka móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd til endurskoðunar.