Efling sakar Eldum rétt um útúrsnúning

Frá dreifingarstöð Eldum rétt á Nýbýlavegi í Kópavogi.
Frá dreifingarstöð Eldum rétt á Nýbýlavegi í Kópavogi. mbl.is/Hari

Efling – Stéttarfélag segir að framkvæmdastjóri Eldum rétt hafi brugðist við fréttum af skaðabótamáli fjögurra starfsmanna sem fyrirtækið leigði af starfsmannaleigunni Menn í vinnu „með útúrsnúningi og rangfærslum“. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef Eflingar.

Efling hefur falið lögfræðistofunni Rétti að sækja rétt mannanna fjögurra gagnvart starfsmannaleigunni og fyrirtækjunum sem skiptu við hana.

„Fyrirtæki sem versla við starfsmannaleigur sleppa ekki með því undan skyldum gagnvart starfsfólkinu. Þetta er gert ljóst í lögum um starfsmannaleigur, sem voru uppfærð í fyrra til að herða á þeim skyldum.

Kristófer hefur nú ítrekað lýst því yfir að mennirnir hafi unnið stutt hjá honum og þess vegna séu kröfur mannanna ekki viðeigandi. Þetta er málinu óviðkomandi. Í lögum um keðjuábyrgð eru tilgreindar undanþágur ef starfið sem um ræðir á sér stað innan ákveðins lágmarkstímabils, en þær undanþágur eiga ekki við í tilfelli Eldum rétt,“ segir í yfirlýsingu Eflingar.

Þar kemur einnig fram að kröfur mannanna hafi verið sendar til fjögurra fyrirtækja í apríl „í takt við lög og eðlilega starfshætti.“ Þrjú fyrirtækjanna hafi „umsvifalaust“ hafið samtal við Eflingu og gengist við sinni lögbundnu ábyrgð, en Eldum rétt hafi kosið að svara „eftir dágóða bið með fremur harðorðu bréfi þar sem allri ábyrgð var vísað á bug“. Segir Efling að í bréfinu hafi verið „bent á ábyrgðarsjóð launa og mögulegt yfirvofandi gjaldþrot Menn í vinnu ehf.“

„Allt var gert til þess að túlka skyldur Eldum rétt á sem þrengstan hátt. Kristófer reynir nú að drepa málinu á dreif með að tala um að vandamálið hafi verið upphæðirnar, en þær voru ekki gerðar að umræðuefni í fyrrnefndu bréfi, og virðist einfaldlega vera viðleitni til að grugga vatnið nú þegar lögsóknin er til umtals í fjölmiðlum,“ segir í yfirlýsingu Eflingar.

„Harka“ Eldum rétt vekur „nokkra furðu“ Eflingar

Einnig segir þar að það veki „nokkra furðu“, í ljósi þeirra aðstæðna sem verkamennirnir voru látnir lifa við, að „þessi harka hafi verið sett í málið af hálfu Eldum rétt, og að Kristófer reyni nú að gera Eflingu, stéttarfélag verkamannanna, ábyrga fyrir að ekki hafi átt sér stað samtal.“

Stéttarfélagið segir það ennfremur „undarlegt að í höfnunarbréfi Eldum rétt virðist Rúmenunum sjálfum vera kennt um það agandi umhverfi sem Menn í vinnu ehf héldu þeim í, með þeim rökum að ráðningarsamningar sem þeir undirrituðu hafi leyft það. Ákvæði þeirra samninga eru í meira lagi vafasöm, enda er vinnuveitandanum þar gefið einhliða vald til að skuldfæra allt frá húsaleigu til líkamsræktarkorts af launum, fyrirfram. Það vald var svo notað í febrúar með grimmilegum hætti, þegar starfsmönnunum var fyrirvaralaust fleygt úr híbýlum sínum peningalausum, með vísun í fyrrnefndan samning. Að stjórnendur Eldum rétt hafi kynnt sér samninginn og álitið hann eðlilegan kemur á óvart, ekki síst í ljósi sögu starfsmannaleigunnar.“

Að lokum skorar Efling á atvinnurekendur að „skipta ekki við starfsmannaleigur, og að reyna ekki að drepa á dreif lögbundinni ábyrgð sinni í slíkum viðskiptum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert