Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra dómsmála segir á Facebook-síðu sinni að hún hafi lengi talið að „fara þurfi sérstaklega yfir framkvæmd“ útlendingalaganna sem voru samþykkt á Alþingi 2016, þegar kemur að börnum.
„Framkvæmdin þarf að fullu að samræmast anda laganna – sem er mannúð og að taka skuli sérstakt tillit til barna,“ skrifar ráðherrann, en segir jafnframt að hún geti ekki tjáð sig um málefni afgönsku fjölskyldnanna tveggja sem til stendur að senda úr landi til Grikklands eftir að umsókn þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi var hafnað.
Ráðherra segir að til þess að tryggja jafnræði hafi hún ekki heimild til þess að „stíga inn í einstök mál“. Hún greinir frá því að í síðustu viku hafi farið fram ráðherrafundur um útlendingamál.
„Á þeim fundi sátu auk forsætisráðherra, ég sem dómsmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra, fulltrúi heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra og sveitarstjórnarráðherra. Þetta sýnir inn á hvaða svið þessi mál fara og sýnir að við verðum að taka með heildstæðari hætti á þeim.
Tilefni fundarins var meðal annars sú fyrirætlan okkar að endurhugsa þverpólitísku útlendinganefndina sem sett var á laggirnar árið 2014, til dæmis með því að bæta inn í hana fulltrúa barnamálaráðherra og endurskoða almennt hlutverk hennar. Út frá þessu höfum við rætt að rýna ákveðna þætti betur,“ skrifar Þórdís Kolbrún.