Fordæma ómannúðlegar brottvísanir

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Stjórn flokksins skorar á ríkisstjórnina að …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Stjórn flokksins skorar á ríkisstjórnina að gera betur við börn sem sækja hér um alþjóðlega vernd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Samfylkingarinnar fordæmir „ómannúðleg vinnubrögð“ í útlendingamálum á Íslandi og krefst þess að fyrirhugaðar brottvísanir barna, sem sótt hafa um alþjóðlega vernd, verði stöðvaðar.

Ennfremur gagnrýnir Samfylkingin harðlega þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur kynnt á útlendingalögum, að undirlagi Sigríðar Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra, og segir að þær þrengi að réttindum fólks sem sækir hér um skjól.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá flokknum, sem send var fjölmiðlum nú í kvöld. Segir þar að það sé pólitísk ákvörðun að gríða ekki í taumana til að koma í veg fyrir brottvísanir sem þessar og að ábyrgðin liggi hjá ríkisstjórninni, og skorar flokkurinn á stjórnvöld að endurskoða útlendingalög þannig að hætt verði að skýla sér bak við Dyflinnarreglugerðina.

Töluvert hefur verið rætt um tvær fyrirhugaðar brottvísanir að undanförnu. Málin eru keimlík, í öðru tilfellinu móðir með tvö börn sín sem stunda nám í Hagaskóla, í hinu tilfellinu faðir með tvo syni. Allt er fólkið afganskt og til stendur að flytja fjölskyldurnar tvær aftur í flóttamannabúðir í Grikklandi.

Boðað hefur verið til mótmælafundar við Hallgrímskirkju í Reykjavík klukkan 5 síðdegis á morgun þar sem brottvísunum barna á flótta er mótmælt. Að fundinum standa meðal annars samtökin No Borders á Íslandi og Jæja-hópurinn, en á fjórða þúsund manns hafa lýst yfir áhuga á viðburðinum sem er, að sjálfsögðu, kynntur á Facebook.

Útlendingastofnun fer með málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Útlendingastofnun fer með málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert