Kölluð negríti í kerfinu

Eva Þóra Hartmannsdóttir
Eva Þóra Hartmannsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Evu Þóru Hart­manns­dótt­ur brá í brún í mæðravernd á dög­un­um, þangað sem hún var kom­in í 25 vikna meðgöngu­skoðun. Í kerfi mæðravernd­ar var á skrá „Kynþátt­ur: Negríti“. 

Eva, sem er af afr­ísk­um ætt­um og dökk á hör­und, seg­ist aldrei fyrr né síðar hafa heyrt þetta orð, en ekki sé annað hægt en að verða hugsað til niðrandi orðsins negri. Hún tek­ur fram að ekki sé við ljós­móður að sak­ast, enda hafi þess­ar upp­lýs­ing­ar bara verið fyr­ir­fram skráðar inn í kerfið á sama stað og nafn, kyn, fæðing­ar­dag­ur og fleiri per­sónu­upp­lýs­ing­ar.

Eva er fædd í Suður-Afr­íku, en var ætt­leidd af ís­lensk­um for­eldr­um þriggja mánaða göm­ul.

„Fyr­ir það fyrsta velt­ir maður fyr­ir sér til­gangn­um með því að flokka fólk eft­ir litar­hafti,“ seg­ir Eva. Þurfi á annað borð að gera það ætti að nægja að geta bara upp­runa­lands fólks, eða alla­vega að nota nú­tíma­legri hug­tök.

Eva furðar sig á að negríti, sem skil­ar aðeins 60 niður­stöðum á Google, hafi orðið fyr­ir val­inu sem besta leiðin til að lýsa þeldökku fólki. Kerfið sem um ræðir hafi nefni­lega verið tekið í gagnið í fyrra og því ljóst að ein­hver hef­ur for­ritað það ný­lega. Þó veki einnig at­hygli að hvítt fólk sé í kerf­inu kallað „Kák­asíti“ (fjöldi Google-niðurstaða áður en þessi frétt er birt: 2). Því sé ljóst að göm­ul og úr­elt orð hafi orðið fyr­ir val­inu í kerfi mæðravernd­ar. Eva von­ast til að umræðan verði til þess að þessu verði breytt.

Eva er ann­ars ekki heil­brigðis­kerf­inu ókunn. Hún er hjúkr­un­ar­fræðinemi og vinn­ur sem slík­ur á Land­spít­ala en hef­ur áður starfað sem sjúkra­liði á blóðlækn­inga­deild. Hún ber spít­al­an­um að öðru leyti sög­una vel, og seg­ir þetta at­vik eins­dæmi í henn­ar sam­skipt­um við spít­al­ann.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert