„Þetta er algjört rugl,“ segir Katrín Árnadóttir, 14 ára nemandi í Hagaskóla. Hún öskraði sig hása á Austurvelli þar sem brottvísun tveggja afganskra fjölskyldna var mótmælt nú síðdegis.
Annars vegar er um að ræða einstæðan föður, Asadullah Sarwary, með tvo syni, 10 og 9 ára. Hinsvegar einstæða móður, Shahnaz Safari, og börnin hennar tvö Amil og Zainab sem eru 12 og 14 ára.
Zainab stundaði nám í Hagaskóla í vetur, eins og Katrín, en nemendum skólans þykir það skjóta skökku við að einn félagi þeirra muni líklega ekki sjást hlæjandi á göngum skólans næsta vetur vegna þess að hún megi ekki búa á Íslandi.
Katrín birti í morgun tíu mínútna langt myndskeið á Facebook þar sem fólk mótmælir brottvísun Zainab og fjölskyldu hennar. Hún auglýsti eftir fólki til að taka þátt í myndskeiðinu á Instagram og Facebook og segir hugmyndina hafa verið einfalda:
„Ég talaði við Zainab og spurði hvernig ég gæti hjálpað. Hún kom með þessa hugmynd.“
Nemendur úr Hagaskóla hafa áður mótmælt brottvísun Zainab og Katrín segir að von sé á frekari aðgerðum, ef stjórnvöld hlusti ekki á þau.
„Við mótmæltum öll í vetur en þá heyrðist greinilega ekki nógu vel í okkur. Við þurftum greinilega að láta betur í okkur heyra og núna komu mun fleiri og ekki bara Hagskælingar.“
Fram kom í fjölmiðlum í dag að engum verði vísað úr landi í þessari viku. Það segir kannski ekki mikið enda eru ekki margir dagar eftir af vikunni. Katrín segir að í síðustu viku hafi verið tilkynnt að tvær vikur væru í brottvísun. Síðan hafi verið tilkynnt að brottvísun yrði í þessari viku en síðan fallið frá því.
„Óvissan er rosalega mikil,“ segir Katrín og bætir við að það eina sem hún og samnemendur hennar biðji um sé að unglingsstelpa fái að halda áfram að stunda nám í Hagaskóla.
„Vonandi heyra stjórnvöld í okkur og grípa til aðgerða. Við vonum að hún verði með okkur á næsta ári,“ segir Katrín og bætir við að þetta snúist um það að 14 ára stelpa geti átt von á góðu lífi:
„Ef hún fer til Grikklands er mjög ólíklegt að hún fái menntun og þar af leiðandi er framtíðin alls ekki spennandi,“ segir Katrín sem ætlar ekki að gefast upp:
„Við höldum áfram þar til öll von er úti.“