Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þrisvar í vikunni verið við hraðamælingar á Hringbraut í Reykjavík, en um er að ræða vegkafla á milli Sæmundargötu og Ánanausta þar sem leyfður hámarkshraði var nýverið lækkaður úr 50 í 40 í kjölfar umferðarslyss sem varð á þessum slóðum. Samtals hefur lögreglan myndað um 300 brot ökumanna á þessum stað.
Á einni klukkustund á mánudaginn eftir hádegi voru mynduð brot 100 ökumanna sem óku Hringbraut í austurátt við Furumel.
Á miðvikudaginn var sami hátturinn hafður á og voru þá mynduð brot 76 ökumanna sem óku í vesturátt.
Í dag var lögreglan aftur með eftirlit á sama stað í eina klukkustund og voru þá mynduð brot 122 ökumanna. Samtals er því um að ræða brot 298 ökumanna á tveimur klukkustundum í þessari viku.
Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að á mánudaginn hafi 479 farið um Hringbrautin á þessari akstursleið. Því var brotahlutfallið 21%, en meðalhraði hinna brotlegu var 54 km/klst og sá sem hraðast ók mældist á 67 km/klst hraða.
Á miðvikudaginn fóru 598 ökutæki þessa akstursleið og því var brotahlutfallið 13%, en meðalhraði hinna brotlegu var 53 km/klst og sá sem hraðast ók mældist á 64.
Í dag fóru 475 ökutæki þessa akstursleið og því var brotahlutfallið 26%, en meðalhraði hinna brotlegu var 54 km/klst. Nítján óku á 60 km hraða eða meira, fjórir á 70 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 80. Þess má geta að við þrjár hraðamælingar á sama stað í ársbyrjun, þegar leyfður hámarkshraði var 50, var brotahlutfallið 2 - 4%.
Lögreglan segir í tilkynningunni að ekki verði annað sagt en að niðurstaða dagsins valdi vonbrigðum.