Hvað verður um þessa flugvél?

TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá þvi í mars.
TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá þvi í mars. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Fjölmargir úrskurðir hafa verið kveðnir upp undanfarnar vikur og mánuði á öllum dómstigum landsins í deilu flugvélaleigurisans Air Lease Corporation (ALC) og opinbera hlutafélagsins Isavia.

Von er á því að úrskurðirnir verði enn fleiri, en í morgun var enn ein fyrirtakan í deilunni fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, segir í samtali við mbl.is að í morgun hafi Isavia fengið frest þar til á föstudag til þess að skila inn greinargerð til réttarins vegna nýrrar aðfararbeiðni sem ALC hefur lagt fram í málinu.

Málið verður svo flutt í næstu viku, en ekki er búið að fastsetja dagsetningu.

ALC telur sig hafa greitt skuldina...

Fyrsta aðfararmálinu, sem höfðað var um miðjan apríl, lauk fyrir Landsrétti í síðustu viku, með því að aðfararbeiðni ALC var hafnað, á þeim forsendum að Isavia væri heimilt að halda vélinni, en bara vegna þeirra gjalda sem tengjast henni beint. Eða sá er skilningur lögfræðiteymis ALC.

ALC hefur þegar greitt Isavia þá fjármuni sem fyrirtækið telur sig skulda, 87 milljónir króna, og hefur nú höfðað annað aðfararmál á hendur Isavia, þar sem þess er krafist að farþegaþotan TF-GPA, sem hefur verið í vörslu Isavia allt frá falli WOW air í lok mars, verði látin eiganda sínum í té.

„Við lögðum fram nýja beiðni í síðustu viku þar sem að við byggjum á því að nú eigi ALC að geta fengið vélina sína aftur enda búnir að borga þau gjöld sem tengjast þessari vél beint og það er í rauninni aðstaðan sem þarf núna að leysa úr,“ segir Oddur.

...Isavia er ósammála

Isavia sagði í yfirlýsingu eftir að fyrra málinu lauk fyrir Landsrétti í síðustu viku að endanleg niðurstaða Landsréttar hefði staðfest „skýra heimild“ Isavia til kyrrsetningar á flugvélinni vegna skulda WOW air og lagði áherslu á að Landsréttur hefði ekki tekið afstöðu til undirliggjandi fjárhæðar.

„Rétt er að hafa í huga að flugvélin sem að um ræðir var kyrrsett vegna heildarskulda WOW air við Keflavíkurflugvöll. Isavia vill ítreka þá staðreynd að eigandi TF-GPA, leigufélagið ALC, getur lagt fram viðunandi tryggingu fyrir skuldinni eða greitt hana að fullu og þannig fengið flugvélina afhenta þá þegar og komið henni í rekstur,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.

Nú er það Héraðsdóms Reykjaness að taka afstöðu til þess, í nýju máli, hvort milljónirnar 87 dugi til þess að leysa vélina úr vörslu Isavia eða ekki, en Isavia vill fá um það bil tvo milljarða upp í heildarskuldir WOW air við Keflavíkurflugvöll.

Búast má við að nú fari hringekjan af stað á ný, þetta mál haldi áfram í réttarsölum landsins næstu mánuði og á meðan sitji TF-GPA sem fastast í vörslu Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert