Stjörnurnar munu hlaðast á gangstéttina

Björgvin Halldórsson og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, við afhjúpun stjörnunnar. …
Björgvin Halldórsson og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, við afhjúpun stjörnunnar. Með þeim á myndinni er Ágúst Ágústsson, betur þekktur sem Gústi rótari. mbl.is/Árni Sæberg

Björgvin Halldórsson er fyrsta stjarna íslenskrar tónlistar. Þess má nú skýrt greina merki í Strandgötu í Hafnarfirði, eftir að fyrsta stjarnan var afhjúpuð í kvöld. Björgvin er auðmjúkur við tilefnið. 

Stjarna Björgvins er fyrsti áfangi í vegferð sem nú er hafin í gangstéttinni utan við Bæjarbíó. Þar á að leggja stjörnur í götuna að fyrirmynd svipaðrar hefðar í Los Angeles í Bandaríkjunum. Þá liggur beinast við að Björgvin, Hafnfirðingur í húð og hár, prýði fyrstu stjörnuna.

Hulunni svipt af stjörnu Björgvins.
Hulunni svipt af stjörnu Björgvins. mbl.is/Árni Sæberg

„Aldrei datt manni í hug þegar maður var strákur að fara niður í KFUM klukkan tvö með hasarblöðin og Jesúmyndirnar, sem maður bíttaði og seldi í Bæjarbíóinu, að þar myndi maður síðar syngja svona mikið og spila svona mikið, í þessu fallega húsi. Allra síst að maður fengi stjörnu í gangstéttina þegar fram liðu stundir,“ segir Björgvin í samtali við mbl.is.

Stjarnan var afhjúpuð við hátíðlega athöfn á opnunarkvöldi bæjar- og tónlistarhátíðarinnar Hjartað í Hafnarfirði í kvöld. Í hönd fóru heiðurstónleikar haldnir til heiðurs fyrstu stjörnunni.

„Ég er bara auðmjúkur og þakklátur fyrir þetta. Þessi stjarna og þessi hátíð eru glæsilegt framtak hjá Bæjarbíói í samstarfi við bæjarstjórnina, þeir eru að búa hérna til fastan lið og hátíðinni vex áfram fiskur um hrygg,“ segir Björgvin.

Stjarna Björgvins er fyrsti áfangi í vegferð sem nú er …
Stjarna Björgvins er fyrsti áfangi í vegferð sem nú er hafin í gangstéttinni utan við Bæjarbíó. mbl.is/Árni Sæberg

Stjörnurnar eiga eftir að hlaðast niður 

Hann hefur trú á þessum nýja sið. „Það er virðingarvert að byrja á þessu hérna. Svo eiga eftir að hlaðast niður stjörnurnar hérna, enda offramboð af frábærum íslenskum listamönnum,“ segir hann glaður í bragði.

Björgvin var bæjarlistamaður Hafnarfjarðar í fyrra og fær stjörnuna í framhaldi af því. Hann var árið 2011 sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar. Heiðurstitlarnir eru orðnir nokkrir. „Þetta er bara klisja en auðvitað er alltaf gott að fá klapp á bakið fyrir vel unnin störf,“ segir hann.

Ekki síst er hann ánægður með að það skuli gerast í hans heimabæ, enda „ekkert leyndarmál“ að hann sé Hafnfirðingur. Hann er ánægður með störf Páls Eyjólfssonar og Péturs Stephensen í Bæjarbíói, en þeir reka staðinn. „Þeir hafa sannarlega komið staðnum á kortið. Allir elska þetta hús,“ segir Björgvin.

Þess má geta að hljómsveitin Hljómar fengu stjörnuspor í gangstétt við Hafnargötu í Keflavík árið 2003 og eins fengu systkinin Ellý og Vilhjálmur Vilhjálmsbörn Stjörnuspor í Keflavík fyrir margt löngu.

Fjölmenni fylgdist með afhjúpun stjörnunnar.
Fjölmenni fylgdist með afhjúpun stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Röddin orðin 99% 

Björgvin er að jafna sig eftir slæma flensu sem hann fékk í byrjun árs. Henni fylgdu bólgur í hálsi og það tók sinn toll á raddböndin. „Ég bara gersamlega gat ekki sungið. Röddin var farin og ég var hálfhræddur. Ég var smeykur, satt að segja,“ segir hann satt. 

„Ég er 99% kominn aftur,“ segir Björgvin, sem slappaði vel af frá áramótum í 3-4 mánuði og er nú aftur kominn á ról og farinn að syngja. Þetta bjargaðist sem sé.

Björgvin stígur ekki á svið í kvöld heldur hlýðir á tónleika til heiðurs sér. Á fimmtudaginn verður hann þó að syngja í Bæjarbíói með hljómsveit og gerir ráð fyrir góðri stemningu. Hann er á fullu og er enn þá heitur eftir goslokahátíðina sem hann var að syngja á í Vestmannaeyjum um helgina. Stjarna íslenskrar tónlistar sjálf.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert