Margir íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa á síðustu dögum orðið varir við fljúgandi asparfræ, sem minna á snjódrífu, víða um borgina.
Grasafræðingurinn Jóhann Pálsson segir í samtali við Morgunblaðið að öspin felli fræ óvenjusnemma í ár.
„Venjulega eru aspirnar að fella fræ um mánaðamótin júlí-ágúst. Það er ekki komin nema rúm vika af júlí þegar hún byrjar núna,“ segir Jóhann og bætir við að ástæðan fyrir því sé hversu snemma voraði. „Það er eiginlega allur gróður þremur vikum fyrr á ferðinni en venjulega.“
Í Morgunblaðinu í dag segir Jóhann merkilegt hversu mikið sé af asparfræjum miðað við hversu mikill þurrkur hafi verið þetta sumarið. Segir hann að rigningin sem hafi komið eftir þurrkinn hafa bjargað gróðrinum.