Þrír milljarðar til verndar náttúru og innviðauppbyggingu

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- …
Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR), undirrituðu á föstudag yfirlýsingu um aukið samstarf milli ráðuneytisins og Framkvæmdasýslunnar vegna uppbyggingar innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Lagt hefur verið upp með af hálfu stjórnvalda að á árunum 2019-2021 verði gert ráð fyrir um 3 milljarða framlagi til verkefna til verndar náttúru og uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum. Nokkur af stærri verkefnum í landsáætlun um uppbyggingu innviða eru nú þegar í undirbúningi og framkvæmd hjá FSR en með samstarfinu er gert ráð fyrir aukinni faglegri aðkomu stofnunarinnar að þessum mikilvægu verkefnum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu

Með samstarfinu er stefnt að því að bæta enn frekar undirbúning að uppbyggingu innviða, auka yfirsýn yfir verkefni og samræmingu milli þeirra og leitast við að framkvæmd þeirra verði hagkvæmari og skilvirkari.

Í samstarfinu verður lögð megináhersla á að fá góða yfirsýn um verkefni sem falla undir lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Til að byrja með verður horft til uppbyggingar innviða í Vatnajökulsþjóðgarði til þess að móta verkefnið.

Samstarfsyfirlýsingin gerir einnig ráð fyrir að hægt verði að nýta verkferla og vinnulag sem fyrir eru vegna annarra svipaðra eða sambærilegra verkefna á vegum ráðuneytisins svo og annarra verkefna á vegum stjórnvalda sem ekki heyra undir landsáætlunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert