Ekki er vitað nákvæmlega með hvaða hætti börnin sem eru á aldrinum fimm mánaða til 12 ára smituðust af E.coli bakteríunni á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 í Bláskógabyggð fyrir 10 dögum til þremur vikum. Vitað er að í kálfastíu með þremur kálfum fannst E.coli bakterían í saursýni frá þeim. Opið var að stíunni þeirra og gátu gestir klappað þeim.
„Þetta er veitingastaður líka. Það gæti auðvitað verið að einhvers konar krosssmit hafi orðið á milli,“ segir Sigrún Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Ekki hefur verið staðfest neitt smit í matvælum frá fyrirtækinu. Heimagerður ís frá bænum var einnig tekinn úr sölu til að gæta fyllsta öryggis á meðan verið er að rannsaka málið nánar, að sögn Sigrúnar.
Strax 4. júlí var lokað fyrir aðgengi að umræddum kálfum. „Við vonumst til að eftir þetta komi ekki upp fleiri tilfelli. Við teljum ekki meiri hættu á ferðinni,“ segir Sigrún. Spurð hvort börnin hafi smitast beint af snertingu við kálfana telur hún það líklegt en það hefur ekki verið staðfest.
Í kjölfar smitsins hafa allir verkferlar verið hertir. „Heilbrigðiseftirlitið vinnur út frá að reyna að fyrirbyggja að svona geti komið upp. Þetta segir okkur að við erum ekki að gera of miklar kröfur á veitingastaði og framleiðendur matvæla. Það er sá lærdómur sem við komum til með að draga af þessu. Það er aldrei of mikil áhersla lögð á handþvott og hreinlæti, sérstaklega þegar börn eiga í hlut,“ segir Sigrún.
Áfram verður haldið að rannsaka sýni sem hafa verið tekin á bænum.
„Það vill enginn lenda í þessu. Þau eru auðvitað miður sín yfir þessu,“ segir Sigrún um staðarhaldarana sem þau hafa átt gott samstarf við. Hún ítrekar mikilvægi handþvottar sem er besta sóttvörnin.