Hafnarfjarðarbær beri kostnaðinn

Reykjanesbraut um Straumsvík liggur á lóð sem Hafnarfjarðarbær seldi álverinu …
Reykjanesbraut um Straumsvík liggur á lóð sem Hafnarfjarðarbær seldi álverinu á samráðs við Vegagerðina. Vegagerðin segir kostnaðinn af því að flytja veginn á ábyrgð bæjarins. mbl.is/Árni Sæberg

Vegagerðin telur það á ábyrgð Hafnarfjarðarbæjar að greiða viðbótarkostnað sem fylgir því að flytja vegstæði Reykjanesbrautar framhjá Straumsvík, segir Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Vegagerðinni, í samtali við mbl.is.

Hann segir jafnframt að ríkið hafi skilyrt greiðsluþátttöku við flutning Reykjanesbrautar við stækkun álversins, en aldrei varð af þeim áformum. Einnig sé ekki ljóst hvers vegna Hafnarfjarðarbær vill leyfa tvær akreinar í gegnum lóð álversins en ekki fjórar og hefur Vegagerðin óskað eftir skýringum bæjaryfirvalda.

Fjallað var um það í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að Vegagerðin hyggist klára breikkun Reykjanesbrautar sem liggur í gegnum lóð sem Hafnarfjarðarbær seldi álveri ÍSAL vegna fyrirhugaðrar stækkunar.

Salan kom á óvart

„Þessi lóð var seld alveg án samráðs. Það kom okkur gjörsamlega á óvart og það getur varla gengið lögfræðilega séð, en ÍSAL gerir þennan samning við Hafnarfjarðarbæ,“ segir Jónas sem bendir á að ÍSAL hafi talið nauðsynlegt að færa Reykjanesbrautina til þess að stækka álverið.

Aðalskipulag Hafnarfjarðar sýnir nýtt vegstæði Reykjanesbrautar.
Aðalskipulag Hafnarfjarðar sýnir nýtt vegstæði Reykjanesbrautar. Skjáskot

„Þá var samþykkt af ríkisstjórn að ríkið myndi greiða fyrir stækkun álversins með því að færa veginn á sinn kostnað ef það væri nauðsynlegt fyrir stækkun álversins.“

Voru síðan stækkunaráform ÍSAL felld úr deiliskipulagi með íbúakosningu. „Þar með féll niður þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að ríkið myndi greiða fyrir flutning á veginum og þá er það bara staðan í dag að ef það á að flytja veginn þá teljum við að Hafnarfjarðarbær greiði þann viðbótarkostnað sem það kostar,“ útskýrir Jónas.

Skilur ekki tillögu Hafnarfjarðarbæjar

Aðalskipulag gerir enn ráð fyrir að vegurinn verði fluttur þrátt fyrir að ekkert hafi orðið úr stækkuninni og hefur Hafnarfjarðarbær þess vegna lagt til að veginum, sem nú liggur um svæðið, verði breytt í einstefnuveg til vesturs á meðan nýr vegur verði lagður með einstefnu til austurs.

„Ég skil ekki hvernig það samrýmist þessum lóðarmálum hjá þeim að það megi vera tvær akreinar en ekki fjórar þarna í gegn. Við höfum sent formlegt erindi til Hafnarfjarðarbæjar og óskað eftir því að þeir endurmeti stöðuna í þessu ljósi,“ segir framkvæmdastjórinn.

„Þetta er umræða sem er ekki mikið komin af stað, en þyrfti að fara af stað af fullum þunga, vegna þess að það er farið að styttast í að við fáum fjárveitingar í að breikka Reykjanesbrautina á þessum kafla,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert